Valur heldur sínu striki og gerir flest af því sem þarf að gera á heimiliinu, s.s. að elda matinn og fara í Bónus. Ég sé nú reyndar að mestu um tiltekt og þvottinn, þannig að eitthvað smá gagn er að mér. Valur er búinn að moka út úr kjallaranum en svo urðu smá tafir á framkvæmdum því annar smiðurinn seldi húsið sitt og þurfti að flytja með öllu sem því fylgir. Þannig að ekki er byrjað á neinni smíðavinnu.
Hrefna er á sínum stað í Köben og gengur ljómandi vel í náminu, eins og hennar er von og vísa.
Andri var í Reykjavík, í starfs- og háskólakynningu. Þetta er ferð sem allir fjórðubekkingar í MA fara og stóð hún frá miðvikudegi til laugardags. Þeir ætluðu nú reyndar að koma heim í dag sunnudag en hann birtist hér í gærkvöldi, og ekki verra að hafa sunnudaginn heima. Í Reykjavík gisti hann hjá Guðjóni bróður Vals og þau hugsuðu vel um drenginn. Meðal annars fékk hann afmælismáltíð á föstudagskvöldið og ömmu hans og afa var boðið líka. Amman var nú reyndar hálf lasin og treysti sér ekki.
Ísak hefur verið í veikinda- og vetrarfríi alla vikuna. Síðasta sunnudag var hann orðinn veikur og er rétt að ná sér núna. Þannig að það var eins gott að við vorum ekki búin að skipuleggja ferð suður í vetrarfríinu eins og til stóð í fyrstu. Tölvan hefur veirð hans aðal félagi þennan tíma og verður að segjast eins og er að foreldrunum stendur ekki alveg á sama um allan þennan tölvutíma. Þó virðist vera ótrúlega erfitt að finna uppá einhverju öðru fyrir hann að gera. Sérstaklega þegar hann er jú veikur og kemst ekki í ræktina.
Úti er aftur farið að snjóa og kyngir niður í augnablikinu. Það er sólarlaust og mikil snjóblinda þannig að Valur treystir sér ekki á skíði. Markmið dagsins hjá mér er að taka til í herberginu mínu og fara í ræktina seinni partinn. Jú og fara í Rúmfatalagerinn að kaupa tvær tágakörfur til að setja í nýja skenkinn sem kominn er á ganginn hjá okkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli