Eftir að þeir voru komnir á sinn stað fór ég svo loks í bæinn. Þar keypti ég íþróttabol á 50% afslætti og fór svo á kaffihús. Fékk mér kaffi og einhverja hollustu-smáköku og sat og fletti tímaritum í dágóða stund og bara naut þess að slappa af. Sá meðal annars uppskrift að súpu sem mér datt í hug að væri tilvalið að hafa í kvöldmatinn. Það hittist reyndar þannig á að uppskriftin var í bók eftir Rósu Guðbjartsdóttur og höfðum við verið að spá í að kaupa þá bók þar sem hún er núna á helmings afslætti, sem ég og gerði. Fór svo í aðeins fleiri búðir en var orðin lúin og dreif mig fljótt heim. Það er að segja, ég ætlaði heim en byrjaði á því að fara í Hrísalund og kaupa gúllas og ákveðið krydd í súpuna. Sótti svo Val í vinnuna og var þá loks komin heim, um hálf fimm leytið.
Þá hvíldi ég mig aðeins en fór svo fljótlega að elda því súpan átti að sjóða í klukkutíma. Þegar hún var komin vel á vel og mallaði ljúflega í pottinum datt mér í hug að baka líka brauð. Fór í tölvuna og fann uppskrift að speltbrauði sem afar fljótlegt er að henda í form og þarf ekkert að lyfta sér. Þannig að ég var nú bara nokkuð dugleg fannst mér. Og það sem var enn betra, allir borðuðu af bestu lyst.
Eftir kvöldmat slappaði ég nú bara aðeins af en náði þó að þvo eina þvottavél og hengja upp. Ætlaði svo snemma í háttinn en gat ekki sofnað, sennilega af því ég var orðin of þreytt. En jú jú, ætli ég hafi samt ekki verið sofnuð í kringum miðnættið þannig að þetta var nú ekkert til að tala um.
Í dag er ég svo eins og valtað hafi verið yfir mig. Sérstaklega eru það vöðvafestur hér og þar sem eru bólgnar og í kringum rass og mjaðmir er ástandið mjög slæmt. Á erfitt með að beygja mig niður (gruna ákveðna æfingu í ræktinni um að eiga sök á því) og hleyp nú ekkert áfram sko. En ég á ekki að mæta í vinnu fyrr en klukkan tvö, þannig að vonandi hef ég náð að safna mér eitthvað saman fyrir þann tíma :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli