sunnudagur, 14. febrúar 2010

Kominn sunnudagur

Hvað verður eiginlega um tímann? Mér finnst hann bara þjóta hjá. Það er lítið markvert að gerast og ég held að tíminn líði þá jafnvel enn fljótar ef eitthvað er. Hver dagur er öðrum líkur og þetta bara líður hjá í einhverri grárri þoku. Hm, þetta hljómaði nú hálf þunglyndislega þó ekki væri það meiningin. En samt gerist nú alltaf eitthvað, það er bara misjafnt hve mikið það stendur uppúr í minningunni.

Við Sunna fórum t.d. á fund í Félagi kvenna í atvinnurekstri á föstudagskvöldið síðasta. Þar var Kári Eyþórsson að tala um mikilvægi hugarfarsins og margt íhugunarvert sem kom fram hjá honum, þó framsetning efnisins væri kannski heldur ómarkviss. Vissulega er það mikilvægt að horfa fram á við og hugsa í lausnum en í stað þess að dvelja í fortíðinni og aðhafast ekkert. Mikilvægt að setja sér markmið og hafa til einhvers að hlakka, í stað þess að hjakka bara í sama farinu. Ég hef ekki verið dugleg að setja mér markmið í gegnum tíðina. Að minnsta kosti ekki formlega, það hafa meira verið óljósar hugmyndir í höfðinu á mér, sem ýmist hafa verið framkvæmdar eða ekki. En ég mætti vissulega vera duglegri að skipuleggja smærri sem stærri atburði í daglega lífinu, svo ég hafi oftar til einhvers að hlakka. Það kemur yfirleitt í törnum hjá mér. Inn á milli gerist svo ekki neitt og manni hálf leiðist bara en hefur samt ekki dug í sér til að rífa sig uppúr þessu volæðisástandi. Jamm.

Nú, svo talaði hann í framhjáhlaupi um þreytu og vildi meina að hún væri að stærstum hluta andleg. Og ekki nóg með það heldur að það væri ótti sem lægi þar að baki. Hann nefndi ekki við hvað sá ótti væri eða hvernig ætti að vinna úr þeim ótta, og kom reyndar ekki meira inná þetta málefni. En þar sem óeðlileg þreyta hefur verið minn fylgifiskur í mörg ár, þá er ég nú eiginlega svolítið forvitin um þetta efni. Reyndi að leita að einhverju því tengdu á netinu en fann ekkert að gagni.

En nú ætla ég að hætta þessu rausi og reyna að bjarga andlitinu fyrir daginn í dag (gerði nefnilega ekki handtak í allan gærdag) og fara í smá húsmóðurleik.

Engin ummæli: