laugardagur, 28. nóvember 2009

Dösuð eftir daginn - en það er nú ekkert nýtt ;)

Jólaösin er loks byrjuð á Glerártorgi og meira en nóg að gera á öllum vígstöðvum í tengslum við vinnuna. Við Sunna komumst varla yfir það sem þurfti að gera í vikunni og eigum t.d. ennþá eftir að setja upp jólaskraut í búðina og velja og panta nýjar vörur + endurpanta vörur sem klárast. Svona er þessi bransi bara, annað hvort í ökkla eða eyra.

Svo er alltaf áætlunin hjá mér að vera voða dugleg og klára jólagjafainnkaupin snemma. Það hefur aldrei gengið eftir og því er ólíklegt að það gangi í ár. En Valur þvoði gluggana í stofunni í dag og setti upp jólaljósakransa, þannig að eitthvað er byrjað á heimavelli. Það er nú ekki margt sem er á dagskránni í jólaundirbúningi. Ég vildi helst ná því að þvo eldhúsinnréttinguna að utan og baka nokkrar smákökusortir. Þá held ég að það sé upptalið, svona fyrir utan jólagjafakaup og matarkaup. Jú, ætli jólakort verði ekki líka send. Og Valur gerir jólaísinn og skreytir jólatréð, og eldar matinn og bakar líklega, þannig að það er ekki margt sem fellur í minn hlut. Aðallega almenn tiltekt hugsa ég og svo set ég reyndar upp jólagardínur + aðventuljós í eldhúsið. Það er sem sagt markmiðið að gera sem minnst og helst stressa mig sem minnst því nóg stress verður í vinnunni. Okkur vantar t.d. ennþá starfsmann/menn í staðinn fyrir Andra og svo er auðvitað opið til tíu á kvöldin síðustu vikuna fyrir jól...

Annars er bara "allt í gúddí" eins og sagt var einu sinni.

Engin ummæli: