miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Vá, hvað ég er löt að blogga þessa dagana

Hef einhvern veginn alveg nóg með að koma mér í og úr vinnu... Geri a.m.k. ekki mikið meira en það. Fór samt í ræktina í dag í annað skipti síðan ég keypti mér kort þar síðasta laugardag.

Svo er ég líka að prjóna einhvern trefil sem kallast gormatrefill. Maður byrjar með 200 lykkjur og prjónar garðaprjón í 4 umferðir, eykur þá út í hverri lykkju og prjónar aðrar 4 og eykur svo aftur út í hverri lykkju og endar sem sagt í 1600 lykkjum. Það er varla pláss fyrir allar þessar lykkjur á hringprjóninum og pínu leiðinlegt að þurfa að prjóna svona voðalega margar lykkjur til að klára eina umferð. Svo er garnið mjög fíngert og átti að prjóna á prjóna nr. 2,5 en ég nennti því nú engan veginn og er með prjóna nr. 3,5. O jæja, þetta klárast einhvern tímann.

Hið sama vona ég að gerist með lopapeysuna sem er reyndar fullprjónuð en á eftir að setja í rennilás. Þannig hefur ástandið verið í a.m.k. 2-3 vikur núna (vonandi ekki 3-4...). Svo er auðvitað önnur hver kona í bænum komin í svona peysu enda var hún í prjónablaði Ístex og því mjög aðgengileg uppskrift. En það er hollt og gott að hafa smá handavinnu í gangi, manni líður vel af því.

Svo tek ég nú auðvitað alltaf myndir og hef gaman af því líka. Þannig að eitthvað geri ég nú. Og nú tek ég eftir því að ég er að ofnota orðið "nú" eins og mér sé borgað fyrir það! En ég held að ég hafi svo sem ekkert fleira í fréttum, ef fréttir skyldi kalla. See you later alligator!

Engin ummæli: