Við ókum sem sagt suður og sem betur fer var ekki farið að snjóa þá því mér fannst nú alveg nógu erfitt að keyra í þessu brjálaða slagviðri sem var. Alveg hreint úrhellisrigning á köflum og hávaðarok. Vona að það verði gott veður á laugardaginn þegar við komum heim!
Síðan,eftir að hafa gætt okkur á kakói og rjómatertu, gistum við hjá mömmu og Ásgrími í Innri-Njarðvík en daginn eftir flugum við til Noregs. Anna og Sigurður sóttu okkur á flugvöllinn og það var bara rjómablíða í Osló.
Seinna um daginn fórum við Anna í göngutúr út í skóg og umhverfis vatn. Þetta var bara nokkuð langur göngutúr á minn mælikvarða, eða um klukkutími, og mjög hressandi. Svo eldaði Anna þessa dýrindis fiskisúpu um kvöldið.
Við Ísak erum ennþá föst í íslenska tímanum og í gærmorgun fór ég á fætur kl. 10 að norskum tíma og fannst ég nú bara nokkuð dugleg, hehe. Um hádegisbilið fór Kjell-Einar í langan hjólatúr en við Anna og strákarnir ókum til Askim. Þar er stór (ísköld!) sundlaug með tveimur rennibrautum og einni öldulaug. Svo er ein upphituð smábarna/þjálfunarlaug og tveir litlir heitir pottar. Við Anna komum okkur vel fyrir í öðrum heita pottinum en fannst við nú ekki hafa setið þar neitt rosalega lengi þegar strákarnir komu og vildu fara uppúr. Já, það er greinilegt að sumir eru að stækka!
Þegar við vorum komin heim aftur byrjaði ég að prjóna peysu en svo tókst mér nú að steinsofna sitjandi í sófanum, hehe.
Í dag eru Anna og Kjell-Einar í vinnunni og ég er bara búin að taka því mjög rólega. Morgunmatur, sturta, prjónaskapur og tölva hafa verið á dagskrá það sem af er. Núna er ég að reyna að fá strákana til að rölta með mér í búðina en það er ekki að hljóta mikinn hljómgrunn. Þeir eru samt búnir að fá leið á að vera í tölvu í bili og ráfa eirðarlausir um húsið og vita ekki hvað þeir eiga að taka sér fyrir hendur.
Ætli ég reyni ekki að koma mér út í smá göngutúr til að liðka mig :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli