mánudagur, 7. september 2009

Blogg fyrir mömmu :)

Já mamma hringdi til að athuga hvort væri ekki allt í lagi hjá mér þar sem ég hef ekki bloggað svo lengi. Ég er bara löt að blogga - og löt að skrifa "status" á facebook. Já, bara löt yfirhöfuð! Svo er ég farin að sofa svo mikið að það er ekki tími fyrir neitt annað... Nei, það er nú reyndar ekki alveg rétt. En ég sef samt mikið. Ætli ég sé ekki bara að rétta mig af eftir sumarið því þá var ég svo oft andvaka og átti erfitt með svefn.
Að öðru leyti gengur lífið bara sinn vanagang. Það varð tómt í kotinu þegar Hrefna var farin aftur til Köben og Andri var farinn í útskriftarferðina til Kanarí, en nú kemur hann heim í kvöld þannig að þá lifnar aðeins yfir húsinu aftur. Hann var nú smá klaufi og gleymdi að bera á sig sóláburð fyrsta daginn og brann á öxlunum, því miður. Vonandi er hann búinn að jafna sig. Svo styttist sjálfsagt í að skólinn byrji hjá honum og er það þá síðasta árið hans í Menntaskóla. Það sem tíminn flýgur áfram. Kannski eins gott að maður fari að gera eitthvað meira við tímann sinn úr því hann líður svona hratt... Verst bara hvað gigtin setur alltaf mikið strik í reikninginn hjá mér. Það er að segja, ég hef svo lítið úthald til að gera hluti því ég er alltaf svo þreytt og illa fyrir kölluð. En þannig er það bara.
Við Valur skruppum í smá ljósmyndaferð í gær. Hann fór reyndar líka á laugardaginn (einn) í Flateyjardal og tók svaka skemmtilegar myndir þar en þá var ég að vinna. Í gær fórum við í Bárðardal og vorum að taka myndir af Skjálfandafljóti. Það er viss áskorun að taka myndir sem sýna vatn á hreyfingu, þannig að vel sé, og mér gengur það ekki of vel. En þá er bara málið að æfa sig!
Á föstudaginn verður fyrsti klúbbur vetrarins og er víst röðin komin að mér að halda klúbb. Þá byrjar líka fjörið að finna veitingar handa skvísunum. Í síðustu tvö skipti hef ég verið svo leiðinleg að vera eingöngu með eitthvað hollustufæði en ætli ég hafi ekki einhverja óhollustu með í þetta skiptið.
Og nú held ég að ég segi þetta bara gott í bili :)

Engin ummæli: