sunnudagur, 20. september 2009

Við Valur gerðum góða ferð á Melrakkasléttu í gær

Eftir svolítið japl jaml og fuður í gærmorgun ákváðum við að láta ekki fjarlægðina og þar með aksturslengdina trufla okkur og ókum af stað austur á Melrakkasléttu. Þangað fórum við síðast saman í lok ágúst 2005 þannig að segja má að tími hafi verið kominn á aðra ferð.

Veðrið hér á Akureyri var afskaplega fallegt þegar við lögðum af stað um ellefuleytið, blankalogn og sólin hafði nýlega brotist fram úr skýjahulunni sem hafði skyggt á hana fyrr um morguninn. Þegar austar dró versnaði hins vegar veðrið, þ.e.a.s. engin var sólin og það var mikill grámi yfir öllu og rigndi á stöku stað. En áfram héldum við, vongóð um að veðrið myndi batna er liði á daginn, eins og það átti að gera skv. veðurspá. Á Húsavík keypti ég heitt kakó og við stoppuðum á útsýnisstað utan við bæinn og fengum okkur kakó og brauð. Og áfram var ekið austur á bóginn. Ég hafði á orði að ólíkt fallegra hefði nú verið að keyra um þessar sömu slóðir fyrr í sumar þegar við fórum í Öxarfjörðinn ásamt Önnu, Sigurði og Ísaki, því veðrið hefur svo mikil áhrif á það hvernig maður uppplifir staði.

Smám saman fór þó aðeins að létta til og þegar við vorum komin á Kópasker var ögn bjartara en þó ekki sól. Við tókum einn rúnt í plássinu en þar var nánast enginn á ferli. Það breyttist reyndar þegar komið var norðar á sléttuna því í nágrenni við Sigurðarstaði var verið að smala kindum og fylltu þær veginn á smá kafla. Ekki var þó margt fólk sem sá um smölunina, það verður að segjast eins og er. Við stoppuðum aðeins og smelltum af nokkrum myndum niðri við sjóinn en héldum svo áfram í gegnum kindahrúguna og ókum sem leið lá niður að eyðibýlinu Skinnalóni.

Viti menn, þá kom loks sólin sem við höfðum beðið eftir, og gerði ljósmyndatökuna enn skemmtilegri. Við stoppuðum lengi við Skinnalón og tókum bæði helling af myndum og skoðuðum eyðibýlin tvö, þó ekki færum við inn í þau. Svo borðuðum við nesti í skjóli við stóran rekaviðarstafla því það var nú ansi kalt. Sólin kom og fór og það var mun hlýrra þegar hún skein, en það var líka vindur og hann kældi mann vel niður. Eftir aðeins meiri myndatökur fórum við aftur í bílinn og ókum aðeins lengra, að afleggjara út að Hraunhafnartangavita.

Ekki var bílfært lengra svo við gengum út að vitanum, mest á afar grýttum "vegi" en þó var sums staðar hægt að ganga á grasi við hliðina. Valur fór upp að haugi þar sem einhver maður (nafnið á honum er dottið úr mér í augnablikinu, spyr Val á eftir) var veginn fyrr á öldum eftir að hafa sjálfur áður vegið þar 14 menn. Ég var þreytt og nennti ekki að ganga meira í bili enda fórum við bæði að haugnum síðast þegar við vorum þarna. Það var samt afskaplega hressandi að ganga þarna við sjóinn. Þarna var enginn nema fuglinn fljúgandi (aðallega skarfar), nokkrar rollur og við. Vitinn og umhverfið var myndað í bak og fyrir og við klifruðum yfir stórgrýtisgarð til að sjá út á sjóinn á næstum því nyrsta tanga landsins. Rifstangi stendur víst örlítið norðar.

Þegar hér var komið sögu var klukkan farin að halla í sex, sólin farin að lækka verulega á lofti, ég var orðin ansi lúin og við bæði að verða nokkuð svöng. Við hröðuðum okkur því aftur í bílinn og lögðum af stað heim á leið. Ekki var mikið stoppað á leiðinni, nema hvað við ákváðum að fá okkur að borða á Húsavík, sem við og gerðum. Fórum á veitingahúsið Sölku þar sem við keyptum okkur steinbít sem bragðaðist mjög vel. Heim vorum við komin um hálf tíu leytið eftir velheppnaða ferð. Lýkur hér með þessari ferðasögu sem einhverra hluta vegna rataði á bloggið mitt :)

Engin ummæli: