þriðjudagur, 1. maí 2007

Vorverkin í garðinum

var þema dagsins hér hjá okkur í Vinaminni. Við rökuðum lauf og klipptum þær trjáplöntur sem Valur var ekki búinn að klippa um daginn. Svo færðu Valur og Andri seljuna sem lagðist nánast á hliðina í roki í vetur. Hún stendur núna rétt við "hólinn" og þar sem seljan var er nú kominn glótoppur sem var að kafna inn á milli stórakvists, þyrnirósar og rauðrunnarósar. Svo er bara að vona að plönturnar lifi þessa flutninga af. Á milli verka fengum við okkur kaffi úti en í morgun fórum við út að hlaupa.

Tja, það er að segja, Valur fór út að hlaupa í morgun en ég fór út að ganga/skokka/hlaupa rétt eftir hádegið (nýbúin að borða, voða sniðug). Ætla að sjá hvað skrokkurinn á mér segir við þessu, hvort hné og mjaðmir fara að kvarta. Ef ekki þá er aldrei að vita nema ég prufi þetta áfram. Sem krakki fannst mér rosalega gaman að hlaupa og eins og barna er siður þá hljóp ég oft í stað þess að ganga. Eftir að ég komst á fullorðinsár hef ég nokkrum sinnum gert tilraun til að hlaupa en líklega alltaf farið of geyst af stað, endað með bólgin hné og gefist upp. En nú er eitthvað hlaupaæði í kringum mig, Valur er að hlaupa, Sunna og Kiddi eru að hlaupa og Fríða bloggari undirbýr sig undir maraþon með því að hlaupa Eyjafjarðarhringinn. Verður maður ekki bara að taka þátt í þessu?

Engin ummæli: