laugardagur, 19. maí 2007

Einhver bloggleti í gangi


þessa dagana. Skrýtið hvernig það koma svona tímabil þar sem mér finnst ég ekki hafa neitt að segja, þó það sé hvorki meira né minna um að vera heldur en á öðrum tímabilum. Lífið gengur bara sinn vanagang, allir þokkalega sprækir. Ísak er byrjaður í prófum, Hrefna er að lesa undir próf úti í kóngsins Köben og fyrsta prófið hjá Andra er á föstudaginn í næstu viku. Kuldaboli hefur verið þaulsetinn hér norðan heiða undanfarnar vikur og ekkert lát virðist þar á. Ég vil samt frekar hafa kulda heldur en rigningu. Sólin hefur náð að brjótast út úr skýjunum stund og stund og í gærmorgun var ég svo heppin að vera einmitt úti að ganga þegar sólin heiðraði okkur með nærveru sinni. Og á göngu meðfram Gleránni sáum við meira að segja Straumönd sem sat á steini og fékk sér blund, með höfuð undir væng. Lítið fór hins vegar fyrir fuglunum í Kjarnaskógi núna áðan, það var helst að heyrðist í einstaka þresti og hrossagauki. Máni og Birta láta líka lítið fyrir sér fara þessa dagana, þreyja þorrann og bíða eftir betra veðri...

Engin ummæli: