þriðjudagur, 8. maí 2007

Mæli ekki með því að byrja að lesa góða bók

rétt fyrir svefninn. Ég fór í bókabúð í gærkvöldi til að nýta 1000 kr. ávísunina sem við fengum senda um daginn frá Félagi Bókaútgefanda og keypti eina bók handa Val og eina handa mér. Valur fékk bókina "Utan alfaraleiða" um jeppaleiðir á hálendinu eftir Jón G. Snæland en ég fékk bókina "Listin að stjórna eigin lífi, virkjaðu þinn innri kraft" eftir Randi B. Noyes.
Í gegnum tíðina hef ég lesið nokkrar bækur sem myndu flokkast undir að vera sjálfshjálparbækur og eru þær mjög misjafnar að gæðum. Þörf mín fyrir að lesa slíkar bókmenntir hefur komið í bylgjum og er ansi langt síðan ég las síðast bók í þessum flokki. Undanfarið hefur samt verið einhver stöðnun hjá mér eða óánægja með sjálfa mig, kannski einfaldlega af því ég hef haft rýmri tíma til að hugsa en mörg síðustu ár, kannski af því börnin eru bráðum uppkomin og þurfa ekki jafn mikla umönnun og áður, kannski af því ég hef löngun til að vaxa og þroskast en ekki hjakka alltaf í sama farinu.
Hvað um það, ég byrjaði sem sagt að lesa þessa bók um hálf ellefuleytið í gærkvöldi og ætlaði bara rétt að kíkja á hana áður en ég slykki ljósið og færi að sofa. En gat ekki slitið mig frá henni og las og las. Var samt alltaf að hugsa að þetta væri bók sem þyrfti að lesa hægt og virkilega íhuga. Hætti þegar ég var hálfnuð með bókina og ætlaði að fara að sofa en gat með engu móti sofnað. Hugurinn var svo virkur að það var ekki séns að ég gæti slökkt á honum. Þannig að ég sofnaði ekki fyrr en seint og um síðir og einhverra hluta vegna var ég vöknuð klukkan sex í morgun. Er samt ótrúlega hress í dag, enn sem komið er allavega...

Engin ummæli: