þriðjudagur, 29. maí 2007

"Áttu heima í tjaldi"

Þessi gullvæga setning hnaut oft af vörum mömmu einnar stelpu sem ég lék mér stundum við þegar ég var lítil. Ástæðan var sú að ég (eða einhver annar í krakkahópnum) hafði gleymt að loka útidyrunum á eftir mér. Blessuð konan hafði töluvert skap og manni fannst ekkert sérlega gaman þegar hún sagði þetta, þó meira í hæðnistón en reiðilega. Allavega, orsök þess að mér datt þetta í hug er sú að Máni, annar tveggja heimiliskatta okkar, opnar ítrekað útihurðina. Fyrst var það bara til að komast inn en nú er hann farinn að opna líka til að komast út. Hann er auðvitað hæstánægður með að vera svona sálfbjarga en okkur er minna skemmt yfir þessum hæfileika hans. Í fyrsta lagi klórar hann hurðina og skemmir hana, í öðru lagi kann hann ekki að loka henni. Um daginn kom ég t.d. upp eftir að hafa verið niðri að horfa á sjónvarpið og þá var ískalt uppi enda útihurðin galopin. Meira vesenið að kötturinn skuli ekki geta lokað á eftir sér...

Engin ummæli: