mánudagur, 16. september 2013

Valur viðrar frúna - og bæði viðra myndavélarnar

Suma daga, þegar þreytan er svo yfirgnæfandi að ég hef ekki gert neitt nema liggja á sófanum allan daginn, verð ég frekar mygluð á allri inniverunni. Þá á Valur það til að reyna að fá mig með sér út í smá göngu - og segist þá ætla að viðra mig. Það kemur fyrir að ég afþakka hans fína boð,  af því ég er hreinlega of þreytt og held varla haus, en stundum segi ég já takk og við drífum okkur út.

Þegar Valur er að „viðra mig“ á þennan hátt keyrum við stundum bílinn í annað hverfi í bænum og göngum þar um. Til dæmis höfum við gaman af því að rölta um Eyrina. Þar er svo margt að sjá, t.d. gömul hús sem sum hver er búið að byggja margsinnis við, fjölbreytt hús, sjóinn og síðast en ekki síst iðnaðarhverfi. Þar er að finna gömul verkstæði og gamla bíla svo dæmi séu nefnd.

Við tökum gjarnan með okkur myndavélarnar í þessar gönguferðir og þá er myndefnið yfirleitt allt sem fyrir augun ber og getur stundum orðið nokkuð fjölbreytt. Í þetta skiptið var nýlega hætt að rigna en enn var frekar þungbúið.


Þessi fallegi inngangur tilheyrir stóru rauðu húsi við Strandgötu og það verður að segjast eins og er að ég hafði aldrei tekið eftir honum áður. Kannski af því hann snýr ekki út að götunni, heldur í austur.


Það er eitthvað með ljósmyndara og svona „göng“. Maður bara VERÐUR að smella af mynd.


Hér má sjá dæmi um fjölbreytilega íbúðabyggð á Eyrinni. Það væri reyndar efni í heila bók, en það er nú önnur saga.


Ég hef gaman af fallegum formum, eins og þeim sem hér má sjá í þessu gamla Volkswagen „rúgbrauði“. Ekki spillir rauða og bláa litasamsetningin fyrir (blár jeppi, blátt hús).


Grillið á gömlum Volvo. Eigandi þessa bíls hefur greinilega verið meðlimur í Félagi Íslenskra Bifreiðaeigenda, og ef grannt er skoðað má sjá númer bílsins á FÍB merkinu: A-432.


Sami Volvo... Muna ekki allir eftir köflóttu ullarteppunum sem voru svo oft notuð til að breiða yfir bílsæti í gamla daga? Ýmist til að verja þau ágangi, eða fela illa farið áklæði.

Þegar ég sá þennan Volvo, rifjaðist upp fyrir mér ferð, sem ég fór með vinkonu minni og foreldrum hennar í Mývatnssveit endur fyrir löngu. Ég var bara krakki, en man þó ómögulega hvað ég var gömul. Málið var að þau áttu hund, og á meðan bílferðinni stóð lá hundurinn ofan á bríkinni þarna í afturglugganum. Þar másaði hann beint í eyrað á mér, auk þess sem hundalyktina lagði niður til mín. (Það ber kannski að taka fram að á þessum tíma var hundaeign alls ekki jafn algeng og í dag og ég var óvön hundum). Þegar við bættust beygjurnar óteljandi þegar ekið var upp og niður Vaðlaheiðina og holurnar á íslenskum malarvegum þess tíma, var viðbúið að eitthvað myndi gerast. Ég varð sem sagt alveg hræðilega bílveik og man ekki betur en stöðva hafi þurft bifreiðina svo ég kæmist út að æla. Við gerðum ýmislegt í ferðinni, fórum m.a. í réttir og í heimsókn á einn eða fleiri bæi, en þetta er það sem ég man best eftir, því ég skammaðist mín svo ógurlega.


Hér má sjá dæmi um „street photography“ en það ljósmyndaform höfðar mjög til Vals um þessar mundir.


Skemmtilegt járnhlið sem virðist heldur betur komið til ára sinna.


Og að lokum, lítil bóndarós sem gægist út um girðinguna.

Jamm og jæja, ég læt þetta gott heita í bili. Er pínu lúin eftir leikfimitíma dagsins (er byrjuð aftur í vefjagigtarleikfiminni hjá Eydísi Valgarðs) en annars er ég bara nokkuð spræk þessa dagana. Tja eða þannig ... hehe um leið og ég sagði þetta mundi ég að ég lá á sófanum allan laugardaginn - en var reyndar strax töluvert hressari í gær - og var svo innilega þakklát fyrir það.

Engin ummæli: