mánudagur, 18. nóvember 2013

Góð helgi að baki

Eftir fimm daga vinnuviku var ég alveg hoppandi glöð að fá helgarfrí ;-) Það munar alveg svakalega um það fyrir mig að hafa tvo daga til að jafna mig eftir vinnuvikuna og ná svona ca. að núllstilla mig fyrir komandi viku, þó ég kannski nái ekki að safna mikilli orku á þessum tveimur dögum.

Fyrir utan vinnu, hafði ég líka verið óvanalega virk í vikunni, fór út að borða í tilefni afmælisins míns á þriðjudagskvöldi, og mætti í ljósmyndaklúbb á miðvikudagskvöldinu og konuklúbb á föstudagseftirmiðdegi.

Enda var ég frekar lúin þegar ég vaknaði á laugardagsmorgninum og tók því rólega til að byrja með. En síðan fór sólin að skína og þá dreif Valur mig með sér út. Við ókum út á Svalbarðseyri, lögðum bílnum og röltum um með myndavélarnar. Mér tókst nú reyndar að fljúga á hausinn þegar ég steig ofan á eitthvað plaststykki sem lá falið meðal fjörusteinanna og sást ekki fyrir snjónum. Fótunum var bókstaflega kippt undan mér og ég féll við. Reyndi að passa uppá myndavélina sem ég hélt á í hægri hönd, og bar fyrir mig vinstri hendina þegar ég datt. Fékk hnykk á bakið og smá verk í vinstri úlnliðinn og vinstri ökklann en slapp annars ótrúlega vel, sem betur fer. Við vorum úti í ca. klukkutíma og það er alveg passlegur tími fyrir mig.


Á laugardagskvöldinu fórum við svo á tónleika með Lay Low í Hofi. Sunnu datt það snjallræði í hug að gefa mér „upplifun“ í afmælisgjöf og tónleikarnir voru sem sagt afmælisgjöfin. Svo komu Valur og Kiddi með okkur og þetta var bara mjög fínt kvöld. Sem breyttist nánast í uppistand á tímabili, þegar Lay Low gat ómögulega munað textann við eitt síðasta lagið. Það var alveg sama hvað hún reyndi, textinn var gjörsamlega horfinn úr kollinum á henni. Þetta hlýtur að vera martröð allra tónlistarmanna, en henni tókst nú að halda haus og hlægja að þessu. Svo mikið reyndar að hún fékk smá hláturskast (skiljanlega því salurinn hló jú með henni) og þá var enn erfiðara að ætla að syngja. Þessi litla uppákoma gerði tónleikana bara ennþá eftirminnanlegri, svo mikið er víst og enginn tók það nærri sér þó hún gleymdi textanum.


Á sunnudagsmorgni vaknaði ég ótrúlega hress og dró Val með mér í sund um hálf tíu leytið. Það voru engir í sundi nema nokkrir fastagestir og við áttum notalega stund í lauginni og eimbaðinu. Svo um eða eftir hádegið var sólin aftur farin að skína og þá datt okkur í hug að skella okkur út á Hjalteyri, enda orðið nokkuð um liðið síðan við fórum þangað síðast. Það var reyndar ótrúlega napurt, enda norðanátt og hafgola/vindur, en virkilega hressandi samt. Ég datt nú ekkert á hausinn í þeirri ferð ... ;o)











En já við vorum þarna í kuldanum í um klukkutíma og það var gott að komast heim í hlýtt hús aftur. Svo var nú bara slakað á það sem eftir lifði dags. Í gærkvöldi var ég reyndar orðin svo þreytt eftir allan þennan helgar-hasar að ég lagðist í sófann, en Valur „stóð vaktina“ og gerði deig í frækex fyrir mig.  Ég er enn og aftur að reyna að standa mig betur í mataræðinu. Var farin að vera alltof lin með glúten og jafnvel mjólkurvörur, að ekki sé minnst á sykurinn ... En ég sá fyrirlestra um daginn á netinu um glútenóþol og það er bara ekkert í lagi að borða glúten annað slagið ef maður er með óþol fyrir því... enda leið mér mun betur fyrstu mánuðina haustið 2010 þegar ég var algjörlega ströng varðandi mataræðið. Held að mér líði allra best ef ég sleppi öllu kornmeti og sykri, en það er þrautin þyngri ... Nóg um það í bili.


Engin ummæli: