mánudagur, 19. nóvember 2012

Stundum verður maður að játa sig sigraðan


og stundum er það bara allt í lagi.

Í kvöld sat ég við tölvuna að skoða vöru- og verðlista. Klukkan var rúmlega hálf níu og Valur hafði skroppið í Pennann (eða Bókval eins og hann og fleiri kalla verslunina ennþá þrátt fyrir eigenda- og nafnabreytingar). Mér fannst hann vera nýfarinn en svo var hann skyndilega kominn heim aftur. Hafði hann þá séð auglýsta tónleika með Jónasi Sig og Ómari Guðjóns sem vera áttu á Græna hattinum kl. 21 í kvöld. Valur ákvað að skella sér á tónleikana, og ég var voða ánægð fyrir hans hönd. Byrjaði svo að spá og spekúlera, hm, kannski ég hefði nú gaman af því líka að lyfta mér aðeins upp. Það er orðið frekar langt síðan við höfum farið eitthvert út að kvöldi til. Jú ég fer bara með honum!

Ég skipti um föt í hvelli og við drifum okkur síðan niður eftir. Þeir félagar voru ekki byrjaðir að spila þegar við komum, en komu á sviðið skömmu síðar. Þá kom fljótlega í ljós að það sem ég hafði haldið að væru frekar rólegir tónleikar með kassagítar, voru það hreint ekki. Það er að segja, það var mikið um ákaft trommuspil, gítar og bassi voru tengd við rafmagn, og tónlistin var mjög hátt spiluð. Sem var allt í lagi fyrst í stað en svo fór mitt gamalkunna hávaða-óþol að segja til sín. Og almennir vefjagigtarverkir í skrokknum líka. Þannig að ég átti orðið erfitt með mig og að sjálfsögðu sá Valur það strax, þó ég reyndi að bera mig vel. Hann er farinn að þekkja svo vel inná mig og mín þreytu- og vanlíðunareinkenni.

Þeir félagar tóku sér hlé eftir ca. klukkutíma og það varð úr að þá fór ég bara heim. Valur varð eftir og annað hvort sæki ég eða Ísak hann á eftir. Það er samt alltaf gaman að fara á "live" tónleika. Og mig langar að fara að læra á gítarinn minn!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er frá því að segja að báðir músíkantar voru afbragð; ætíð ánægja því samfara að detta inn á tónleik af slíkum gæðum,
Halur