og enginn tími til að blogga... Tja, líklega hefði ég nú haft tíma til þess, svona strangt til tekið, en það var samt ekki efst í forgangsröðinni.
Þar sem september og október voru svo rólegir í búðinni, höfðum við Sunna reynt að halda að okkur höndum við að panta vörur, enda þarf víst að vera hægt að borga fyrir þær líka. Afleiðingin er sú að núna sjáum við ekki fram úr verkefnum sem tengjast því að panta vörur og taka þær upp.
Við erum að skipta við marga heildsala (eða birgja eins og þeir kallast víst núna) og það er alveg hreint ofboðslega tímafrekt að fara í gegnum vöru- og verðlista og spá og spekúlera hvað eigi að panta, í hve miklu magni o.s.frv. Það verkefni mun halda áfram fram að jólum, því við viljum jú helst bara panta eftir því sem vörurnar seljast, til að sitja ekki uppi með mikið magn af óseldum vörum eftir jólin.
Til að kóróna ástandið þá eru líka skil á virðisaukaskatti í byrjun desember, svona eins og maður hafi ekki nóg annað að gera ... Þannig að í síðustu viku var ég flest kvöld að færa bókhald, eftir langa daga í vinnuni.
Enda var ég komin á hálfgerðan yfirsnúning. Ég fann það vel á föstudagskvöldið. Þann dag hafði verið sérlega mikið að gera í vinnunni, það voru margir kassar af vörum sem þurfti að taka upp úr, + afgreiða viðskiptavini + panta vörur + taka til og fara með sendingar á pósthúsið. Eftir vinnu fór ég í kvennaklúbb en náði ekki að slaka á þar og njóta félagsskaparins, þrátt fyrir hin bestu skilyrði. Við hittumst í Café Björk í Lystigarðinum og þar var enginn nema við, svo það var afskaplega notalegt. Um kvöldið horfðum við Valur á einhvern þátt í sjónvarpinu og hefði allt verið með felldu hefði ég verið orðin þreytt og syfjuð um hálf ellefu leytið. En þá var ég hins vegar alveg glaðvakandi og greinilega í einhverju adrenalín-rússi. Mér tókst nú samt að sofna um miðnættið en var glaðvöknuð kl. 7 í gærmorgun.
Þá fór ég að færa bókhald en svo um hálf ellefu fórum við Sunna niður í búð að setja upp smá jólaskraut. Hún reyndar sá nú mest um það, ég snérist í kringum hana, hjálpaði smá til og kláraði líka að koma einhverjum vörum inn í sölukerfið. Þegar hér var komið sögu fór allur hamagangur vikunnar að segja til sín, og ég fann að ég var að verða stjörf af þreytu. Ég var komin heim aftur um hálf tvö og gerði ekki neitt meira í gær. Það var bara sófinn (þar sem ég sofnaði eftir kaffið) og tölvan og svo sjónvarpið í gærkvöldi. Algjörlega búin á því, sú gamla.
Góðu fréttirnar eru samt þær að ég steinsvaf í alla nótt og er þar að auki langt komin með að færa bókhaldið, svo þetta er allt á réttri leið :-)
Annars heldur bara áfram að snjóa hér á Akureyrinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem ég tók í ljósaskiptunum núna í morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli