sunnudagur, 11. nóvember 2012

Hin ágætasta helgi brátt að baki


Mér finnst ég vera búin að gera eitthvað svo óvenju mikið undanfarið. Þessi aukni dugnaður hlýtur að tengjast þeirri staðreynd að ég er loks laus við pestina sem var að hrjá mig. Það tók mig alveg 3-4 vikur og ég segi nú bara "farið hefur fé betra" ;-)

En já það er loksins allt að fara á fullt í vinnunni, sem er frábært en þó pínu oggolítið erfitt... Það er að segja, ég vil jú helst að það sé brjálað að gera hjá okkur, því þegar maður er búinn að fjárfesta í einu stykki verslun, þá vill maður helst að reksturinn gangi vel. Á hinn bóginn - þá leiðir meiri vinna til meiri þreytu, og sú gamla má ekki alveg við því. Þannig að þetta er svona pínulítið súrt-sætt dæmi. Ég var t.d. að vinna í gær (laugardag) frá 13-17:20 og settist ekki niður nema í 5 mín. en var annars á fullu allan tímann. Í dag hefði ég átt að eiga frí, en það var svo mikið að gera á tímabili að það var of mikið fyrir eina manneskju, svo ég fór niður eftir og var þar í ca. 1,5 tíma. Ástandið hafði nú reyndar lagast mikið þegar ég mætti á svæðið, en það eru einkum innpakkanir sem stífla afgreiðsluna þegar bara ein er að vinna.

Í viðbót við aukna vinnu (við vorum á fullu að panta + taka upp vörur mest alla síðustu viku) þá fór ég á fund í ljósmyndaklúbbnum s.l. miðvikudagskvöld, og eins og alltaf þá var það mjög gaman. Þetta eru svo ótrúlega hressar skvísur og mér finnst ég vera sérlega heppin að vera í þessum félagsskap. Eins og staðan er í dag þá eru ekki fleiri konur teknar inn, því það verður erfitt með fundarstaði ofl. ef við verðum fleiri en 18. Það er ekki alltaf pláss á kaffihúsi fyrir allan þann fjölda, ef allar mæta.

Í síðustu viku hitti ég líka tvær góðar vinkonur mínar, þær Unni og Heiðu. Við höfum þekkst í bráðum 30 ár, kynntumst þegar við vorum allar að vinna sem sjúkraliðar í Selinu, sem var þá hjúkrunardeild fyrir aldraða. Þrátt fyrir að mislangur tími líði milli þess sem við hittumst, þá er það alltaf eins og við höfum hist í gær, og mér þykir óskaplega vænt um þær báðar.

Eftir afskaplega góðan nætursvefn (svaf eins og steinn til kl. 9.30, geri aðrir betur) og morgunmat, fórum við Valur út að taka myndir. Fyrst vorum við niðri í bæ en kíktum síðan aðeins á Leiruveginn. Þar var reyndar skelfilega kalt og mig langaði í heita og góða súpu, svo við enduðum í kaffihúsinu í Lystigarðinum. Því miður var aðeins rjómalögðu sveppasúpa í boði og hana gat ég jú ekki borðað, en við fengum okkur þá bara kaffi og köku í staðinn. Það var voða notalegt að sitja þarna í smástund og slaka á. Fyrst vorum við ein en svo bættist við ein fjölskylda og það fyndna var að þau búa hér í sömu götu og við.

Í dag spjallaði ég líka við Önnu systur á Skype, því snilldarforriti. Þar að auki er ég nýlega búin að heyra í mömmu, Hrefnu og Andra, og það verður að segjast eins og er, að mér líður alltaf betur ef allt gengur sinn vanagang hjá fólkinu mínu. Ekki verra að fá að heyra í því endrum og sinnum, hehe...

Myndi dagsins er af Menningarhúsinu Hofi, hinu nýja kennileiti Akureyrar. Sólin hafði troðið sér í gegnum smá skýja-gat og speglaðist akkúrat í stóra glugganum sem snýr í suður. Síðan speglaðist jú Hof líka í sjónum að hluta til, svo það voru alls kyns speglanir í gangi ;o) Ég var með svo flotta linsu í láni hjá Val, 35 mm. Zeiss linsu og myndin þar af leiðandi alveg kýrskýr og tær.

Segjum þetta gott í bili, sjáumst!

Engin ummæli: