þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Ljósmyndir í óreiðu


Í síðustu viku hafði samband við mig kona og spurði hvort ég ætti einhverjar vetrarmyndir frá Íslandi. Þessi kona hannar ofboðslega fallegar vörur, sem hún lætur framleiða fyrir sig í Finnlandi. Nú er hún á leiðinni til Finnlands þar sem hún mun halda sýningu á vörunum sínum hjá framleiðandanum.  Sá vildi endilega fá íslenskar vetrarmyndir til að nota við kynningu á vörunum, og þá datt henni í hug að athuga hvort ég ætti einhverjar myndir sem hægt væri að nota.

Ég varð dálítið upp með mér af því að vera spurð, og lagðist í það verkefni að skoða myndir síðustu 2-3ja ára. Það reyndist töluvert meira verk en ég hafði gert mér grein fyrir. Aðallega vegna þess að í myndasafninu mínu eru um 18 þúsund myndir og þær eru ekki nógu vel flokkaðar hjá mér. Það er að segja, myndaforritið gerir kleift að merkja hverja mynd með lykilorðum, s.s. landslag, vetur, sól, frost, Akureyri, o.s.frv. en ég hef bara alls ekki verið nógu dugleg að nýta mér þennan möguleika.

Síðustu tvö árin eru reyndar svona þokkalega vel merkt með lykilorðum, en ekki eldri myndir sem ég tók áður en ég fékk þetta forrit. Svo er eiginlega málið að maður þarf að vera svakalega duglegur að láta sér detta í hug nógu mörg lykilorð til að merkja með, til að auka líkurnar á því að finna myndir sem annars gleymast bara í öllu farginu.

Eins þarf ég að vera duglegri að setja myndir sem ég er búin að vinna, í möppur þar sem ég get gengið að þeim, í staðinn fyrir að hafa allar myndir, bæði unnar og óunnar í einni kös. Ég sé að ég þarf að vanda mig betur í þessu með skipulagningu, merkingu og flokkun ljósmynda. Sem er bara hið besta mál. Eftir dálitla yfirlegu fann ég einhverjar vetrarmyndir og lét hana hafa, svo er allt annað mál hvort þær henta og verða yfirhöfuð notaðar.

Þetta var svona nokkurn veginn það sem helgin fór í hjá mér. Ekki að ég hafi eytt allri helginni í þetta samt, heldur var Fröken Þreyta í heimsókn ásamt Herra Leiða og voru þau býsna þaulsetin. Það er erfitt að gera nokkuð með svo uppáþrengjandi gesti í heimsókn. Ég fór þó út á Leirur í ca. hálftíma á sunnudeginum og tók nokkrar myndir, auk þess sem ég hljóp inn í Rúmfatalagerinn þar sem ég keypti hvítt skrautband. Bandið notaði ég til að vefja utan um "heimagerða" jólaskrautið sem fer í stofugluggana.

Fyrir jólin í fyrra kom í ljós að fallegu jólakransarnir sem við keyptum á sínum tíma í Ikea, voru ónýtir (ljósin dauð). Ég klippti þá ljósadótið utan af vírakransinum sjálfum, keypti ljósaseríur sem ég fann á afslætti og vafði þeim utan um. Var samt ekki nógu ánægð með þetta af því kransarnir voru svo "berir" eitthvað. En um daginn sá ég hvítt skrautband í Rúmfó sem mér datt í hug að vefja utan um kransana til að gera þá hlýlegri. Svo fann ég hvítar slaufur í Pier sem ég set efst innan í hvern krans, og er þá bara nokkuð sátt. Á reyndar ennþá eftir að græja síðasta kransinn ... svo framtakssemin er nú ekki meiri en það  ;-)

En í allri þessari myndaleit um daginn fann ég eina gamla sem mér fannst svo falleg. Ég leita alltaf uppi sólina á þessum myrkasta tíma ársins og þessi mynd er tekin við sólarupprás kl. 12.06 þann 22. nóvember 2010.

Engin ummæli: