Skólasundið er byrjað og þá eru eftir þrjár brautir handa almenningi. Ég get ekki synt á þessari lengst til hægri því hún er breiðari og aðeins með línu (sem skilur á milli brautanna) öðrumegin. Þar að auki fer yfirleitt elsta fólkið á þá braut og þó ég syndi ekki hratt, þá syndi ég hraðar en þau. Þá voru eftir tvær brautir og þrjár manneskjur á annarri og tvær á hinni. Ég vildi ekki troða mér á brautina með þessum þremur og eftir að hafa horft í smástund á hina brautina og skoðað hvernig landið lá, ákvað ég að það væri ekki sterkur leikur að verða þriðja manneskjan á þeirri braut. Þar synti karlmaður afskaplega hægt baksund og kona synti skriðsund töluvert hraðar því hún var með froskalappir. Ég hefði verið með sundhraða þarna mitt á milli en mér sýndist nógu erfitt fyrir þessi tvö að deila braut þó ég bættist ekki við. Það vildi mér til happs að það var laus braut í gömlu lauginni og þar synti ég nokkrar ferðir. Þó ekki eins margar og ég hafði ætlað mér, því ég er með sár á fingri eftir að hafa skorið mig á laukskera í vinnunni í gær, og plásturinn var farinn að losna af. Ég vildi ekki taka sénsinn á því að hann færi alveg, því það blæddi svo mikið úr sárinu í gær og ég hafði ekki áhuga á að enda í blóðbaði þarna í lauginni...
Þetta var langur inngangur að því sem ég ætlaði í raun að segja. Sem sagt... Ég hafði kippt myndavélinni með mér í bílinn þegar ég fór í sund og eftir sundið fór ég smá ljósmyndarúnt. Byrjaði á því að fara í Lystigarðinn en þar var lýsingin ekki alveg að gera sig. Það var reyndar smá sól en hún lýsti svo takmarkað inn í garðinn þetta snemma dags.
Í Lystigarðinum hitti ég Björgvin sem ég vann með í Garðræktinni þegar ég var unglingur, en hann hefur verið forstöðumaður Lystigarðsins til margra ára. Ég hafði eitthvað fátt að segja, svo ég greip til þess umræðuefnis sem Íslendingum er tamast, og sagði eitthvað í þá áttina að það væri nú aldeilis gott veður. Björgvin var snöggur til svars og sagði að þetta væri nú bara lognið á undan storminum. Ég sem horfi aldrei á veðurfréttir hafði ekki hugmynd um að spáin væri eitthvað leiðinleg, en hann sagði að það væri spáð kulda, rigningu og roki. Ekki sagði hann hvenær þessi leiðindi ættu að skella á okkur og ég spurði hann ekki. Langaði hreinlega ekkert til að hugsa um þetta vonda veður framundan.
Næst stoppaði ég á brúninni efst í Spítalavegi og smellti af mynd yfir Pollinn og Eyrina. Ef vel er að gáð má sjá að skýin eru nú hálf þungbúin þarna í norðrinu.
Síðan tók ég smá rúnt inn í Innbæ og smellti af nokkrum myndum þar.
Þessi húsaröð á mótum Lækjargötu og Aðalstrætis er svo skemmtileg finnst mér. Ekki spillir gamla Volkswagen bjallan fyrir heildarmyndinni.
Þetta gula hús var flutt annars staðar að og sett niður í Innbænum. Ég á að vita hvar húsið var áður en það er alveg stolið úr mér. Upplýsingar óskast...
Kristjana Agnarsdóttir í ljósmyndaklúbbnum mínum á þetta hús, ásamt Snorra Guðvarðarsyni manni sínum. Þau eru búin að gera það svo fallega upp eins og sjá má. Því miður man ég ekki hvað það er gamalt en byggt einhvern tímann á seinni hluta 18. aldar.
En talandi um gömlu húsin í Innbænum, þá rakst ég á þennan bækling, sem sýnir húsin og segir sögu nokkurra þeirra (svona ef einhver vill skoða hann).
Þar er meðal annars sagt um Sjónarhæð, húsið sem ég fæddist í:
"Hér bjó maðurinn sem allt gat, trúboðinn Arthur Gook. Ekkert gerist nema Guð lofi og Gook vilji, sögðu Akureyringar. Hann reisti meðal annars útvarpsstöð og seldi útvörp fyrir daga Ríkisútvarpsins."
Og ef einhver skyldi nú ekki vita hvaða hús Sjónarhæð er, þá er það næsta hús norðan við Leikhúsið. Hér er gömul mynd sem ég tók af því á þokudegi haustið 2010.
Og ef einhver skyldi hafa áhuga á að fræðast meira um Arthur Gook, þá réðist mamma í það stórvirki að skrifa ævisögu hans fyrir nokkrum árum síðan. Hana má lesa á blogginu hennar mömmu, með því að smella á tengilinn hægra megin á síðunni hennar: "Bók um Arthur Gook".
2 ummæli:
Æijá sundbrautirnar. Það er voða gott að vera aleinn í flottu lauginni á Laugum, ég hef stundum hitt á það.
Ég kom oft í Sjónarhæð með Helgu Hilmars. Hvar í heiminum ætli hún sé núna? Stundaði til dæmis saumafundi þar.
Ég held að Helga Hilmars sé í Færeyjum, eins og svo margar aðrar systur hennar. https://www.facebook.com/helga.h.gerdalid Mér sýnist hún meira að segja vera á facebook, ef þú vilt endurnýja kynnin við hana :)
Skrifa ummæli