fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Mataræði

Ég er alltaf að spá og spekúlegra í ýmislegt varðandi mataræði, þó ekki sé nú hægt að segja að ég hafi prófað sérlega margt í þeim efnum. Það er að segja, ég hef aldrei farið á neina ákveðna matarkúra, en aðallega reynt að taka út sykur, hvítt hveiti, glútein og mjólkurvörur. Þetta með mjólkurvörurnar er nú reyndar pínu furðulegt. Ég þoli ekki að drekka venjulega mjólk, ýmsir ostar fara ekki vel í mig og t.d. sykraða jógúrt þoli ég ekki. En ég get borðað smjör, venjulegan brauðost og rjómi fer ágætlega í mig. Einhvern tímann áttaði ég mig svo á því að líklega væri það mjólkursykurinn sem ég er viðkvæm fyrir. En ef kolvetnin eru 4 gr. eða minna pr. 100 gr. þá get ég alveg borðað viðkomandi mjólkurvöru.

Undanfarið hef ég verið að lesa mér svolítið til um Low-Carb-High-Fat (kolvetnasnautt en fituríkt) mataræði og ég verð að segja að það er ýmislegt þar sem talar til mín. Þónokkrir læknar á Norðurlöndum eru farnir að mæla með þessu mataræði, einkum vegna þess að það hefur góð áhrif á fólk og dregur úr einkennum ýmissa sjúkdóma. Fólki með sykursýki 2 vegnar t.d. mun betur á þessu fæði heldur en því fæði sem yfirleitt er mælt með fyrir slíkt fólk. Á flugvellinum í Osló keypti ég bók eftir norskan lækni, dr. Sofie Hexeberg og er búin að gleypa hana í mig (bókina þ.e.a.s.). Þar er að finna sögur af fólki sem glímdi við ýmis vandamál og leið öllum mun betur við að skipta yfir á þetta mataræði. Sýnd eru dæmi um blóðprufur fyrir og eftir - og það sem best er, þegar stóð til að hún myndi skrifa bók, þá hafði læknirinn samband við 35 fyrrverandi sjúklinga sína og komst að því að 33 þeirra voru enn á þessu mataræði. Það finnst mér svo frábært því það sýnir jú að þetta virkar fyrir fólk.

Og þá er bara spurningin, hvernig gengur mér (sykurfíkli með meiru) að fylgja svona mataræði? Sofie mælir með því að byrja rólega og draga smám saman úr kolvetnamagni, svo maður fái slæm fráhvarfseinkenni (nokkuð sem hún sjálf klikkaði á og varð eiginlega fárveik). En já ég er að minnsta kosti aðeins farin að skoða þetta ... :-)

Engin ummæli: