sunnudagur, 4. apríl 2010

Lata stelpan...

var heiti á bók sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Stelpan var svo löt að hún var alltaf ógreidd, í skítugum fötum og hjá henni var líka allt skítugt. Ekki man ég hvað það var sem leiddi hana á rétta braut, en að lokum sá hún villu síns vegar og snarbreytti um lífshætti. Ekki man ég heldur af hverju ég fór að hugsa um þessa bók núna. Sennilega vegna þess að ég hef verið að gagnrýna sjálfa mig fyrir leti í dag. Og það eru sko engar ýkjur að segja að ég sé löt. Nenni bókstaflega engu. Er ekki búin að fara í bað og þó það hafi hvarflað að mér að gaman gæti verið að fara í sund þá nennti ég því ekki. Svo var sól og fallegt veður og mér datt í hug að það gæti nú verið hressandi að fara út að ganga - en ónei, ekki nennti ég því. Nú svo sit ég fyrir framan tölvuna af því ég ætlaði að fara að færa bókhald en ... nenni því ómögulega. Veit samt að ég mun gera það eftir smá stund. Það er bara alltaf erfiðast að byrja.

Ég er líka eitthvað dösuð eftir gærdaginn. Þá var ég fyrst að vinna og fór svo í Íþróttahöllina að fylgjast með úrslitum í módelfitness, en Sunneva kærastan hans Andra var að keppa þar. Það var reyndar verið að keppa til úrslita í fleiri fitness greinum, svo þetta tók allt dálítið langan tíma. En henni gekk mjög vel stelpunni, lenti í öðru sæti í sínum hæðarflokki og allir glaðir með það.

Annars er merkilegt hvað maður þarf alltaf að vera að skilgreina sig út frá því hvað maður er duglegur. Ef maður gerir fátt, er maður þá eitthvað síðri fyrir vikið? Mér finnst margir vera svona, ekki bara ég, að vera sífellt í einhverri vörutalningu.. búinn að gera þetta, búin að gera hitt, þá hlýt ég að vera frábær manneskja. Og ef listinn er ekki þeim mun lengri... þá er eitthvað að manni. Jamm og jæja, gleðilega páska öllsömul :)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Húsgögnin yfirgáfu hana... og kötturinn held ég ;) Ég er að bíða eftir að sófinn minn sem áður var mjög hvítur og fínn yfirgefi mig ;)

Hrefna

Guðný Pálína sagði...

Aha, nú man ég það, þau fóru bara... En kettirnir eru nú ennþá hjá mér og mannfólkið líka, heppin ég :)