Annars gekk suðurferðin vel í alla staði. Á leiðinni suður mættum við óteljandi bílum fullum af ungmennum á leið norður, en söngvakeppni framhaldsskólanna var jú um helgina. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu fór Ísak í sturtu og svo drifum við okkur í Perluna, þar sem sunnanliðið (foreldrar Vals, bræður, makar og einhver barnabörn + þeirra makar) biðu eftir okkur. Maturinn heppnaðist ágætlega, þó vissulega hefði borðhaldið verið afar langdregið, því við þurftum að bíða svo lengi eftir hverjum rétti fyrir sig. En það var bara gaman að vera þarna með þessum hópi og ekki fyrr en í lokin að tímalengdin var farin að segja til sín. Við gistum á íbúðahóteli við Laugaveginn, við hliðina á tveimur skemmtistöðum, en sváfum samt eins og steinar (eða nálægt því alla vega).
Á laugardeginum fórum við á kaffihús og fengum okkur morgunmat en svo fór Valur í ýmsar útréttingar og við Ísak fylgdum með. Um tvö/þrjúleytið var ég orðin þreytt og Ísak leiður á flandri, svo við fórum heim á hótel. Þar steinsofnaði ég og svaf að minnsta kosti einn og hálfan tíma. Var alveg rotuð þegar ég vaknaði. Svo skruppum við aðeins til Guðjóns og Eddu, því þar var Hrund með litla Guðjón Atla sem fæddist á afmælisdeginum mínum. Svo fórum við út að borða og í bíó um kvöldið því Ísak langaði í bíó. Skruppum reyndar örstutt til Hjartar og Guðbjargar eftir bíóið.
Á sunnudagsmorgni fórum við í morgunmat til tengdó, og brunuðum svo heim á leið. Vorum komin heim fyrir fjögur, sem var ágætt því þá gat gamla konan náð að hvíla sig aðeins.
Ég tók myndavélina með og smellti af nokkrum myndum, bæði á leiðinni suður og eins í afmælinu. Þetta mótíf þekkja sennilega allir.
Stórt rigningarský yfir Borgarnesi.
Svona var veðrið orðið þegar við nálguðumst höfuðborgina. Hér að fara í göngin.
Gunna og Matti skoða matseðilinn.
Arnaldur, sonur Hjartar og Guðbjargar, með Ólöfu kærustunni sinni.
Dagur Hjartarson og Helena kærastan hans. Gunna og Matti í baksýn.
Guðjón bróðir Vals, Edda konan hans og svo Ísak Freyr.
Hér sést í hnakkann á Guðjóni, vangasvipurinn á Vali og svo Guðbjörg, Hjörtur og sonur þeirra Marteinn.
Með eftirréttinum fylgdi þessi fína "kerta"skreyting sem skíðlogaði fyrir afmælisbarnið :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli