þriðjudagur, 27. apríl 2010

Líður skár af kvefinu

Sem betur fer. En af því vælubíllinn var að keyra hér framhjá (djók) þá ætla ég samt að væla aðeins. Er nefnilega að drepast úr bólgu í tannholdi og alveg brjáluðum eyrnaverk. Það er nú svo skrítið að parkódín dugar ekki á eyrnaverkinn og þrátt fyrir að hafa verið bryðjandi verkjatöflur í allan dag þá er ég enn með þennan svaka verk í eyranu. Kannski tengist hann tannholdsbólgunni - nú eða þá kvefinu. Skiptir ekki öllu máli, hann er jafn óþolandi fyrir því.

Annars fór ég í vinnu í dag og það gekk bara ágætlega. Var svo "heppin" að það var lítið að gera þannig að ég tók því bara mjög rólega. Kippti með mér lopapeysunni hans Ísaks, sem nú fer alveg að verða búin, og prjónaði nokkrar umferðir. Ætlaði svo að prjóna á fullu þegar ég kæmi heim úr vinnunni en hef ekki snert á þessu ennþá. Hálf undirlögð eitthvað öll af þessu kvefi. Hm, það er nú frekar undarlegt að tala um kvef þegar enginn er hóstinn. En hvað um það. Nú þarf að ákveða hvað á að vera í kvöldmatinn og ég get ekki beint sagt að hugmyndirnar streymi fram. Ef ég hefði verið kokkurinn þá hefði örugglega ekki verið neinn matur í kvöld. En Valur vill yfirleitt alltaf elda mat og finnst "snarl" ekki vera matur. Það krefst þess þá líka að okkur detti eitthvað í hug til að elda. Og helst eitthvað fljótlegt því hann er á fullu niðri að hjálpa smiðnum við að leggja parkettið (held ég). Að minnsta kosti er hann á fullu að gera eitthvað, því ekki slappar hann af frekar en fyrri daginn. Afslöppun finnst ekki í hans orðaforða. Svo má alltaf deila um það hve hollt það er að halda stöðugt áfram og keyra sig alltaf á 100% afköstum - en það er nú önnur saga.

Engin ummæli: