fimmtudagur, 18. júní 2009
Öðruvísi dagur
Ég hef verið eitthvað svo lúin undanfarið að ég reddaði mér fríi í vinnunni í dag. Dagurinn byrjaði reyndar ekki svo vel því ég var andvaka í nótt og alveg eins og klessa þegar ég vaknaði í morgun, en það rjátlaðist fljótt af mér. Þar sem ég átti frí langaði mig til að gera eitthvað annað en venjulega, svo ég sleppti því að fara í sund og fór í staðinn út í Kjarnaskóg með myndavél. Það var rigningarsuddi og ekki nema 6-7 gráðu hiti, en samt yndislegt að vera úti í náttúrunni. Ég rölti hringinn og stoppaði á nokkurra mínútna fresti til að taka myndir, svo ekki fór ég nú hratt yfir. Enda var mér orðið hálfkalt þegar ég kom aftur í bílinn. Svo fór ég bara heim og var í heljarinnar afslöppun fram eftir degi. Enda er staðan þannig núna að ég er komin með hræðilegan móral yfir að hafa ekki notað frídaginn í eitthvað gáfulegt! Já, ég er ótrúleg, það verður ekki af mér skafið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli