Já það er enginn bilbugur í mér þegar kemur að morgunæfingunum í sundlauginni. Eftir að synda 750 metra eru æfingarnar næstar á dagskrá, stundvíslega kl. 8.20. Nema í morgun. Þá var ég mætt uppí legvatnið eins og gárungarnir kalla það en ekki mætti hópurinn. Ég beið þolinmóð aðeins lengur en ákvað þá bara að gera æfingarnar sjálf þó ein væri. Ruglaði reyndar aðeins röðinni en það gerði ekkert til. Þetta eru ágætis æfingar, aðallega teygjur en líka maga- og bakæfingar og gott að byrja daginn á þessu. En ástæðan fyrir því að ég var ein, var sú að Ásta mætti ekki en hún er greinilega prímus mótor í þessu því án hennar eru kallarnir eins og höfuðlaus her (hehe, segi ég og veit ekki betur) en það sýndi sig að minnsta kosti í morgun. Það voru óvenjulega fáir mættir og þeir þrír sem voru, tjilluðu bara í heita pottinum. Ég á nú eftir að stríða þeim á þessu á mánudaginn ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli