Ég vaknaði klukkan hálf átta í morgun eins og lög gera ráð fyrir en af því það er nú laugardagur þá reyndi ég af miklum móða að sofna aftur - og tókst það. Vaknaði næst klukkan hálf tíu og fór þá á fætur. Búin að liggja í rúminu í tíu og hálfan tíma og orðin stíf eins og staur. Þá er sundið bjargvætturinn og ég var nú öll mýkri og betri að því loknu. Ákvað að gera mér dagamun og í stað þess að fara heim að borða morgunmatinn fór ég í Pennann og fékk mér kaffilatté og fletti nokkrum tímaritum. Þar á eftir fór ég á smá búðarrölt og keypti mér meira að segja einn bol. Efnið í honum fannst mér rosalega fallegt en veit ekki alveg með sniðið. Þarf að máta við einhverjar flíkur sem ég á til að sjá hvort ég ætla að eiga hann eða ekki.
Þar sem kokkurinn er ekki heima þarf ég að elda matinn í kvöld og varð lambahryggur fyrir valinu. Ég ætlaði að fletta upp í hinni sígildu Helgu Sigurðar en fann þar ekkert um steikingu á lambahrygg. Kannski hef ég ekki leitað nógu vel. En það reddast. Verra með sósuna. Ég hef ekki gert brúna sósu í háa herrans tíð. Synirnir eru hins vegar miklir sósukallar, eins og meginþorri Íslandinga reyndar, þannig að ég reyni að sulla einhverju saman :-) Og nú er ég að spá í að fara smá rúnt og vita hvort ég rekst ekki á einhver myndefni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli