þriðjudagur, 9. júní 2009

Í Skíðadal


Í Skíðadal, originally uploaded by Guðný Pálína.

Við Valur fórum í enn eina ljósmyndaferðina síðasta sunnudag. Í þetta sinn var ferðinni heitið í Svarfaðardal. Ókum við svo inn Skíðadal og hluta af einhverjum vegi inn á afrétt. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þetta fjall heitir en það var afskaplega tíguleg fjallasýnin þarna.
Annað gengur sinn vanagang. Máni lenti í slagsmálum í gær og var með stórt gat á skottinu þar sem hann hefur verið bitinn. En sárið virðist ætla að gróa af sjálfu sér og engin ástæða til að fara með hann til dýralæknis.
Ísak er byrjaður í vinnuskólanum og Andri byrjar líklega bráðum að vinna hjá okkur í Pottum og prikum. Byggingafyrirtækið sem hann hefur unnið hjá síðastliðin tvö sumur er hætt starfsemi svo ekki fékk hann vinnu þar. Hins vegar getum við ekki boðið honum nema rúmlega hálfa vinnu eða svo - en pabbi hans ætlar líka að ráða hann í vinnu við húsamálun held ég.
Það styttist í sumarfrí hjá Val og þar með fyrstu og einu skipulögðu veiðiferð sumarsins. Sem er líklega 90% samdráttur frá undanförnum árum. Spurning hvort hann á ekki eftir að redda sér einhverjum túrum, ætli hann þoli nokkuð við öðruvísi. Annars er ekkert planað hjá okkur í sumar, ætli þetta verði ekki bara látið ráðast allt saman.

Engin ummæli: