miðvikudagur, 25. júní 2008

Ég fór til sjúkraþjálfara í gær

og hann skoðaði mig í bak og fyrir og komst svo að þeirri niðurstöðu að einhverjir smáliðir hægra megin væru fastir. Líka sagði hann að ég væri með hryggskekkju og vantaði alla sveigju neðst í mjóhrygginn. Þetta með hryggskekkjuna heyrði ég einhvern tímann sem krakki en hélt að hún væri úr sögunni. En sem sagt, hann kenndi mér æfingar sem ég á að gera og miðað við fjölda skipta á dag þá sýnist mér að ég þurfi að taka með mér gólfdýnu í vinnuna svo ég geti gert þetta samviskusamlega. Talandi um vinnuna þá hringdi í mig blaðamaður frá Fréttablaðinu í gær og sagðist ætla að fjalla um pítsusteina í matarþætti blaðsins og spurði hvort hún mætti ekki senda ljósmyndara í búðina og mynda okkur Sunnu í sambandi við umfjöllunina. Maður slær ekki hendinni á móti svoleiðis kynningu þannig að Heiða ljósmyndari kom og myndaði okkur með pítsusteina í forgrunni og vonandi kemur þetta vel út. Sunna leiddi blaðamanninn og nöfnu sína Sunnu í allan sannleika um steinana, mér fannst réttara að hún gerði það því hún hefur persónulega reynslu af þeim. Nú er bara að bíða eftir því að þetta birtist, við steingleymdum að spyrja að því hvenær það myndi verða...

Engin ummæli: