miðvikudagur, 18. apríl 2007

Vortiltekt í fullum gangi

Vil eiginlega ekki vera svo djörf að kalla þetta vorhreingerningu því ég er mun meira að laga til en gera hreint. Þreif þó bakaraofninn í gær og sló þannig tvær flugur í einu höggi, prófaði ofn- og grillhreinisinn sem við erum að selja í Pottum og prikum, og þreif jú ofninn sem þarfnaðist þess sárlega. Það væri best ef við gætum sjálfar prófað allt sem við erum að selja en því miður er það erfiðara í reynd. Einhver þarf jú að bera kostnaðinn af því. En fólk vill helst fá ákveðin svör varðandi það hvernig hin eða þessi vara er að reynast, skiljanlega, og mér líður best að geta svarað því með því að vísa í eigin reynslu. En sem betur fer eru margir viðskiptavinir tilbúnir að miðla af sinni reynslu og þá getum við vísað í þær frásagnir.

En svo ég snúi mér nú aftur að tiltektinni þá á ég við það vandamál að stríða að ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera við ýmsa hluti. Til dæmis sængurfötin með barnamyndum sem búið er að nota vel og lengi en eru þó ekki orðin ónýt. Ég kann ekki við að setja svona mikið notaða hluti í t.d. Rauða krossinn en kann ekki heldur við að henda þeim því þau eru jú heil. Svo eru það jakkar (sem sér ekki á) og buxur sem Valur er hættur að ganga í en er ekki tilbúinn að losa sig við. Gömul spariföt af sjálfri mér sem ég er ekki tilbúin að losa mig við (ekki mikið af þeim samt). Ljósmyndir í römmum sem einu sinni héngu uppi á vegg en hafa einhverra hluta vegna ekki ratað þangað aftur eftir málningu og herbergjaskipti. Og ýmislegt fleira... Jamm og jæja, ég hlýt að finna eitthvað út úr þessu.

Engin ummæli: