föstudagur, 20. apríl 2007
Skynfærin fimm
Ég fór út í Kjarnaskóg og gekk einn hring í morgun. Veðrið var yndislegt, 2ja stiga hiti, sól og logn. Og af því ég vildi endilega njóta þess í botn að vera úti í góða veðrinu þá hugsaði ég með mér að það væri upplagt að nýta öll skynfærin fimm. Ég byrjaði á að nota sjónina og horfði á sólina, vetrargrátt grasið, grænu barrtrén og snjóablettina sem enn sjást víða. Svo hlustaði ég á þrestina, hrossagaukinn og smáfuglana og í fjarska mátti heyra í vinnuvélum. Hnusaði þvínæst út í loftið og fann lyktina af vorinu. Snerting var næst á dagskrá en í stað þess að faðma tré (eins og verðandi leikskólakennarar voru látnir gera á námskeiði hjá Önnu Richards) þá lokaði ég augunum og fann hvernig sólin kyssti mig blíðlega á kinn og yljaði mér. Þegar hér var komið sögu var ég býsna ánægð með sjálfa mig, alveg þar til ég ætlaði að fara að nota fimmta skynfærið. Það var alveg sama hvað ég braut heilann, ég gat bara ómögulega munað hvað það var. Gekk þar af leiðandi í þungum þönkum hluta leiðarinnar og hugsaði og hugsaði. Hvað gat það verið? Það olli mér satt best að segja töluverðu hugarangri að geta ekki munað þetta því ég samdi einu sinni prófspurningu sem gekk út á það hvernig markaðsfólk getur nýtt þekkingu sína um skynfærin fimm þegar vara er markaðssett. Ég fór að rifja upp fleiri hluti sem ég hef ekki getað munað undanfarið og var orðin handviss um að teflonheilinn minn væri endanlega að geispa golunni. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og allt í einu laust svarinu niður í huga mér, fimmta skynfærið er að sjálfsögðu bragð. Hins vegar langaði mig ekki að bragða á neinu í skóginum í þetta sinnið en hefði örugglega gert það ef grasið hefði verið orðið grænt. Þannig að ég lét þetta gott heita og hélt heim á leið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli