miðvikudagur, 26. apríl 2006

Er með hellur í eyrunum

eftir sundið í morgun. Það rifnaði nefnilega stykki úr sundhettunni minni þegar ég var að setja hana á mig og ég neyddist til að synda "berhöfðuð". Sem var mjög undarleg tilfinning, mér fannst hárið á mér fljóta um alla laug (frekar fyndið þar sem ég er stutthærð) og það sem verra var, eyrun á mér fylltust af vatni. Það er svo skrýtið að þegar maður er búinn að venja sig á ákveðna hluti eins og að vera með sundhettu í sundi (sem var reyndar upphaflega keypt til að hlífa litaða hárinu mínu) eða hjálm á reiðhjóli þá verður maður alveg ómögulegur ef þessir hlutir eru ekki til staðar. Mér finnst ég t.d. hálf nakin ef ég er ekki með hjálm þegar ég er að hjóla og fer helst ekki á reiðhjólið án hans. Sú staðreynd gerir það reyndar að verkum að ég get aldrei farið á hjóli í sund. Ástæðan: Jú, ef ég set hjálm á höfuðið á mér meðan hárið er ennþá rakt eyðileggst hárgreiðslan! Segið svo að það sé ekki erfitt að vera kona.

Engin ummæli: