sunnudagur, 23. apríl 2006

Hef verið illa haldin af þrifnaðar- og tiltektaræði

um helgina. Ég ryksugaði alla efri hæðina og Valur þá neðri, svo þreif ég klósettin, skúraði eldhúsgólfið og lagaði til í skápum og skúffum. Setti föt í poka sem eiga að fara í Rauða krossinn og ógnaði Val með fyrirspurnum um hvað ætti að gera við ýmis gömul föt sem hafa reynst honum vel í gegnum tíðina en hann er hættur að nota. Helst vill hann geyma þetta allt saman, enda nýtinn maður. Hins vegar er skápapláss af fremur skornum skammti miðað við þetta stóra hús og ég sé minni tilgangi í að geyma alla mögulega hluti. En ég virði það að allir eru ekki sama sinnis og ég - farga aldrei neinu án leyfis!

Svo er ég ekkert skárri en Valur að því leyti að sum föt geymi ég. Föt sem hafa eitthvað tilfinningalegt gildi s.s. stúdentsdragtin mín sem Valur gaf mér og fjólublár prjónakjóll sem var fyrsta flíkin sem hann gaf mér. Auk þess einn sparijakki sem ég keypti síðasta haustið okkar í Tromsö. Þá var ég ólétt og fór á stúfana til að leita að einhverri utanyfirhöfn og datt óvart inn í dýra verslun sem auglýsti allt á hálfvirði af því búðin var að flytja. Ég sá þennan jakka, kolféll fyrir honum og keypti hann, þó ég gæti ekki mátað hann nema lauslega þar sem kúlan á maganum á mér hindraði það. En ég átti eftir að nota hann mikið síðar meir, þannig að ég sá ekki eftir kaupunum. Hins vegar er hann náttúrulega löngu dottinn úr tísku, aðallega vegna þess að sniðið er svo vítt en nú er allt svo aðsniðið. Ég bíð bara í ca. tíu ár, ætli tískan verði þá ekki komin í hring?

Engin ummæli: