laugardagur, 4. september 2004

Er eins og sprungin blaðra

Það er laugardagur og ég er búin að vera eins og drusla í allan dag. Druslaðist á lappir um hálf tíu leytið í morgun, bara til þess að sitja fyrst við eldhúsborðið og lesa Moggann í náttsloppnum og færa mig svo inn í stofu og leggjast upp í sófa með "Alt for damerne". Kettirnir kvarta reyndar ekki yfir því þegar ég er þreytt því þá gefst þeim tækifæri til að koma og leggjast ofan á mig - en það finnst þeim algjör draumur í dós að geta legið á svona fínum upphituðum bedda. Þegar leið að hádegi lufsaðist ég inn á bað og þvoði mér um hárið og setti á mig andlitið til þess að hræða ekki líftóruna úr þeim sem ég myndi hitta er ég færi í Bakaríið við brúna. Það tókst og í bakaríið fór ég, auk þess sem ég skrapp í Heilsuhornið að kaupa ólífulauf handa Andra sem er kominn með hálsbólgu.
Hann var meira og minna veikur allan síðasta vetur, hefur sennilega fengið hálsbólgu og kvef 7-8 sinnum, en hefur verið frískur í allt sumar. Nú er skólinn byrjaður og ..... veikindin greinilega líka en krakkinn er skólaleiður með afbrigðum. Annars byrjaði þetta vel, hann var bara nokkuð ánægður fyrstu dagana en í miðri 2. vikunni heyrði ég þessa gullvægu setningu þegar ég fann hann fúlan með afbrigðum inni á baði og spurði hvort eitthvað væri að "ég nenni bara ekki í skólann, það er hundleiðinlegt þar". Og í lok þessarar sömu viku er hann sem sagt orðinn veikur! Hvað á maður að gera við svona börn?

Komin heim úr leiðangrinum fékk ég mér brauð og te með bóndanum (sem fékk sér auðvitað kaffi) og þá var kominn tími til að spýta í lófana, bretta upp á ermarnar, gefa fullt gas og fara að laga til í húsinu. Sem sagt gera eitthvað af viti. En hvað gerir mín þá? Jú, hún fer aftur inn í stofu og (eftir að hafa setið í smástund) leggst upp í sófa með kvennatímarit í hendi. Eftir smástund var hún svo steinsofnuð og við erum ekki að tala um að hún hafi sofið í svona 10 mínútur (bara smá fegurðarblund). Nei, hún svaf í 2 tíma, geri aðrir betur, án þess að vera veik eða þunn (sem væri náttúrulega lögleg afsökun!). Á meðan þessu fór fram var Valur að sjálfsögðu úti að vinna, þ.e.a.s. að mála gluggana á húsinu. Mikið er nú gott að eiga svona duglegan mann því ef hans nyti ekki við væri hér allt í niðurníslu. Hver haldið þið að hafi svo ryksugað? Nú hann auðvitað. Þannig að hér sit ég með kolsvarta samvisku og búin að eiga langar einræður við sjálfa mig um það hvílíkur lúser ég er eiginlega. Mér til hugarhægðar ætlar Valur ekki að elda í kvöld heldur ætlum við að skreppa og fá okkur indverskan mat á Götugrillinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er þannig með sprungnar blöðrur, að þær má fylla aftur með einföldum aðferðum; þær verða því ekki ætíð tómar eða sem sprungnar.

Hadda sagði...

Blessuð Guðný, gaman að kíkka á bloggið þitt... og um helgar má maður vera latur:-)enda helgarnar svona hálfgerð jól á mínu heimili!!
Kv, Hadda