mánudagur, 6. september 2004

Er greinilega

búin að ná mér í einhverja víruspesti. Hélt bara áfram að liggja til skiptis í rúminu og á sófanum megnið af gærdeginum og var þá búin að sjá að þetta var nú meira en venjuleg leti sem var að hrjá mig. Ætlaði samt að gera tilraun til að hrista af mér slenið í morgun og dreif mig í leikfimi fyrir vinnu. Hafði ekki verið nema tæpar 5 mínútur á hlaupabrettinu (gekk á sama hraða og farlama gamalmenni) þegar ég sá að þrátt fyrir fögur fyrirheit þá myndi ég ekki geta "platað" þessa pesti sem er að hrjá mig. Neyddist til að játa mig sigraða og fara aftur heim með skottið milli lappanna. Aumingjaskapurinn var svo mikill að ég treysti mér ekki einu sinni í vinnuna, þannig að Bryndís hefur staðið vaktina ein í dag.

Annars fengum við óvænta heimsókn í gær. Það voru mamma og Ásgrímur maðurinn hennar sem voru skyndilega komin án þess að gera boð á undan sér. Þau búa í Keflavík en hafa verið á Siglufirði undanfarna daga og ákváðu að skella sér inn til Akureyrar þegar þeim bauðst far með manni sem keyrir Mercedes Benz. Það var ekki hægt að hafna því að aka í svona lúxuskerru. Ég hef gaman af því hvað þau eru "frjáls eins og fuglinn" og drífa sig bara af stað ef þeim dettur í hug að fara eitthvert. Mamma var föst á Akureyri í mörg ár, fyrst var hún bundin yfir ömmu minni (mömmu sinni) sem var sjúklingur lengi og fór aldrei á elliheimili né sjúkrahús heldur annaðist mamma hana alltaf hérna heima. NB! Við erum að tala um að amma mín varð 100 ára! Svo skömmu eftir að amma dó þá veiktist pabbi, fékk heilablóðfall og missti máttinn öðru megin. Þá hélt mamma áfram í hjúkrunarhlutverkinu og annaðist hann þar til yfir lauk, í 4-5 ár. Þannig að mér finnst bara flott að mamma, sem er rétt að verða 78 ára, hagi sér svolítið eins og unglingur.

Við fórum á Götugrillið á laugardagskvöldið og það kom mér bara skemmtilega á óvart. Þetta er lítill staður en mjög huggulegur, ég bíð bara eftir því að Vala Matt fari þangaði í heimsókn í Innlit- útlit, því þær Gulla (í Má Mí Mó) sem hannaði staðinn virðast vera bestu vinkonur ef dæma má af því hversu oft Gulla hefur komið í þáttinn til Völu. En við fengum okkur indverska máltíð og það voru meira að segja ekta indverskir kokkar í eldhúsinu. Þetta var bara alveg ágætt hjá þeim en bar kannski svolítinn keim af því að um skyndimat var að ræða, þetta var ekki alveg nógu "djúsí" einhvern veginn. Og mér fannst það ansi klént að hafa sama salatið með forréttinum og aðalréttinum. Mér fannst samt ánægjulegt hvað það voru margir að borða þarna því við komum svo snemma, eða fljótlega uppúr sex. Það er allt í lagi að hafa smá samkeppni við Greifann og þó það sé nú ekkert barnahorn (sá það a.m.k. ekki) þá var Ísak bara glaður því hann fékk fría áfyllingu á gosið og nammipoka á eftir matnum.

Ég er að drepast úr eirðarleysi þessa dagana og vantar einhver ný viðfangsefni. Lét mér detta í hug að það gæti nú verið ráð að fara á námskeið af einhverju tagi, þannig að ég las ýtarlega um hvert einasta námskeið sem auglýst er inni á http://www.simey.is Sumt af því var áhugavert s.s. Aukin persónuleg færni, Hvernig verður þinn Blíðfinnur til?, Ítölsk matargerð, Spænska fyrir byrjendur, Hjónanámskeið, Vínsmökkun og fyrir þá sem fara illa út úr vínsmökkunarnámskeiðinu; 12 spora námskeið á vegum kirkjunnar. Gallinn við megnið af þessum námskeiðum er sá að þau eru svo dýr. Misdýr að vísu en Blíðfinns-námskeiðið kostar t.d. 32 þús. krónur. Ódýrast er 12 spora námskeiðið en það er ókeypis! Nú er bara vandinn að velja.....

Engin ummæli: