fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Þetta líður hratt

Á morgun er síðasti dagur fyrri vikunnar á Kristnesi og er óhætt að segja að þessi vika hafi liðið hratt. Í rauninni er kannski ekki beint svo mikil dagskrá þarna, en engu að síður er ég orðin frekar lúin eftir vikuna. Ingvar Þórodds (endurhæfingarlæknir) sagði að það væri ágætt að miða við að maður vaknaði ekki þreyttari á morgnana eftir því sem liði á vikuna, og ég hef svo sem ekki gert það. Hef sofið ágætlega á næturnar og fundist ég nokkuð úthvíld þegar ég vakna. Samt geri ég nú fátt annað en hvíla mig þegar ég kem heim á daginn. Í dag skrapp ég reyndar í Bónus og á bókasafnið, en þetta voru lítil innkaup í Bónus og ég þurfti að fara á bókasafnið af því ég var komin með sekt.

En já, í morgun átti að gera á mér þrekpróf og það gekk nú ekki vel. Sjúkraþjálfarinn byrjaði á því að taka púlsinn hjá mér, það átti að vera viðmiðunarpúls, til að sjá hvað gerðist þegar ég færi að reyna á mig. En þá var ég búin að vera í stressi að koma mér á réttum tíma á Kristnes (alltaf á síðasta snúningi, alveg sama hvað ég er með fögur fyrirheit) og púlsinn var yfir 120 slög á mínútu. Svo settist ég nú samt á hjólið og byrjaði að hjóla á vissu álagi, og þá gerðist það að púlsinn lækkaði eftir því sem ég hjólaði lengur. Hehe, ég gat nú ekki annað en hlegið að þessu. Þrekprófið var sem sagt ómarktækt og hún ætlaði að upphugsa einhverja aðra aðferð til að mæla þrekið hjá mér.

Í dag var líka fróðlegur fyrirlestur þar sem Ingvar fjallaði um það hvað gerist í líkamanum þegar fólk lendir í vítahring verkja, svefnleysis og hreyfingarleysis. Honum tókst að útskýra þetta allt saman á góðu mannamáli þannig að allir skildu vel það sem um var rætt.

Í lok hvers dags er hálftíma slökun. Hún fer þannig fram að við liggjum á rúmum í rökkvuðu herbergi og látum fara vel um okkur með kodda, teppi og léttan grjónapoka yfir augunum (þeir sem vilja). Svo er sjúkraliði sem talar okkur inn í slökunina, undir róandi tónlist og/eða náttúruhljóðum. Ein okkar steinsofnar alltaf nánast um leið og hún leggst á koddann, en ég hef bara sofnað einu sinni. Enda er það ekki markmiðið með þessu. Það er ábyggilega mjög þarft að slaka á og mér finnst það í rauninni mjög gott, en ég verð svo óskaplega þreytt eftir slökunina að ég treysti mér aldrei til að leggja strax af stað heim þegar hún er búin. Það gæti nú reyndar haft eitthvað með það að gera að slökunin er næsti dagskrárliður á eftir vatnsleikfiminni, en hún tekur vel á og er þar að auki í vel heitu vatni, svo maður verður alveg eins og undin tuska á eftir.

Á hverjum degi er líka farið út að ganga fyrir hádegismatinn. Hver og einn gengur eins langt og hann treystir sér til og það er engin pressa á að ganga sem lengst, frekar hitt ef eitthvað er. Gengið er á akveginum frá Kristnesi, annað hvort til norðurs eða suðurs, og eru gular vegastikur notaðar sem mælikvarði á göngulengdina. Stikurnar eru sem sagt merktar með metrafjölda frá aðaldyrum. Ég gekk fyrst ekki nema rúma 700 metra, svo ca. 1300 metra og í dag 1600 metra. Hefði í sjálfu sér getað gengið lengra alla dagana, en vil ekki ofgera mér. Heyri alltaf Val segja: "Þú manst að þú þarft að komast til baka líka". Hehe, hann er búinn að horfa svo oft uppá mig ganga of langt og eiga í erfiðleikum með síðasta partinn á tilbaka leiðinni.

Jæja, ég læt þetta gott heita í bili. Eins og Valur sagði í kvöld þegar hann horfði á mig, þá er gott að það er að koma helgi :-)

Engin ummæli: