laugardagur, 30. júlí 2011

Komin heim

Já ferðin til Noregs gekk eins og í sögu, þrátt fyrir að þessi skelfilegu atburðir nokkrum dögum fyrir brottför hafi að sjálfsögðu sett mikinn svip á upplifunina að þessu sinni. Ferðin byrjaði nú reyndar frekar skrautlega þar sem ég var nærri búin að missa af vélinni suður. Heilinn í mér náði einhvern veginn ekki að vinna rétt á þessum tímapunkti og mér fannst að mæting væri á flugvöllinn á þeim tíma sem var í raun brottfarartími. En þetta hafðist allt, ég fékk náðarsamlegast að tékka mig inn þó innritun væri eiginlega lokið, og gekk svo beint út í vél (frekar tæpt sko...).

Ég gisti svo hjá Rósu vinkonu aðfaranótt sunnudags og það er nú aldeilis lúxus að geta gengið að vísri gistingu í Hótel Álfheimum. Við gengum aðeins í grasagarðinn á sunnudaginum, þar er allur gróður í fullum blóma og afskaplega fallegt. Svo keyrði Rósa mig út á BSÍ þar sem ég tók flugrútuna til Keflavíkur. Það var klukkutíma seinkun á fluginu en það gerði svo sem ekkert til, ég var bara eitthvað að dóla mér á flugvellinum. Anna systir sótti mig út á Gardermoen, en það er u.þ.b. 50 mínútna akstur þaðan og heim til þeirra í Ski. Það var nú farið að nálgast miðnætti þegar við komum heim í hús, svo við fórum fljótlega í háttinn, en fyrst skoðaði ég aðeins breytingarnar sem þau hafa verið að gera á húsinu.

Á mánudeginum var ég ótrúlega spræk þrátt fyrir ferðalagið deginum áður, og við fórum inn til Oslóar eftir hádegið. Anna sýndi mér búð sem heitir Design forum, en þar fást afskaplega litrík og falleg föt. Við vorum heillengi að skoða og spá og spekúlera og á endanum gekk ég út með fallega spariskó og einfalda gollu. Þegar hér var komið sögu vorum við orðnar svangar og Anna stakk uppá að við færum á Grand, en það er einskonar kennimerki í miðborginni og þar hefur margur mektarmaðurinn setið. Það stóð líka á endum að komin var úrhellisrigning, svo það passaði fínt að hlaupa þar inn. Við fengum okkur mjög góða krabbasúpu og sátum þarna dágóða stund.

Þegar við komum út af veitingastaðnum var hætt að rigna og við sáum að mikill mannfjöldi var að streyma í miðborgina. Þar átti að fara fram svokölluð "Rósa-skrúðganga", til heiðurs þeim sem létu lífið í hryðjuverkunum. Það var ótrúlegt að sjá allt þetta fólk koma gangandi og langflestir með blóm í hendi. Á sumum götuhornum hafði fólk lagt kerti og blóm.

Við ákváðum að ganga í áttina að svæðinu þar sem sprengjan hafði sprungið og gengum upp einhverja götu sem ég veit ekki hvað heitir, þar til við komum að girðingum sem lögreglan hafði sett upp til að loka svæðinu. Þar sáum við hús með brotnar rúður, og yfir höfuð þá hafði greinilega brotnað mikið af gluggum í verslunum þarna í kring. Mörg hús voru með brúnar spónaplötur í stað glugga.



Við ákváðum svo að fylgja mannfjöldanum um stund og gengum í áttina að ráðhúsinu, þar sem skrúðgangan átti að hefjast. Þar dreif endalaust að fólk úr öllum áttum, svo brátt var ekki hægt að ganga neitt lengra og ekki hægt að gera annað en standa kyrr á sama stað. Eftir nokkuð langa bið heyrðist loks í manni í hátalara, sem sagði að um 150.000 manns væru á bryggjunni og í miðbænum, og sökum fólksfjölda væri ekki hægt að ganga að Dómkirkjunni þar sem leggja átti blómin. Í staðinn yrði standandi samvera og klukkan sjö yrðu ræðuhöld.

Við Anna vorum orðnar þreyttar á að standa þarna kyrrar og ákváðum að halda heim á leið. Það var samt ótrúlega erfitt að komast í burtu í öllum þessum mannfjölda, en hafðist að lokum. Alls staðar var fólk, í öllum götum í miðbænum.

Hér sést niður á Karl Jóhann. Þvílík mannmergð þarna í fjarska (fyllir upp í götuna).

Svo keyrðum við aðra leið heim en venjulega og ég fékk að sjá yfir Osló og auk þess að keyra í gegnum íbúðarhverfi sem ég hafði aldrei áður séð. 

Engin ummæli: