laugardagur, 9. júlí 2011

Síðasti dagurinn fyrir vestan

var laugardagur - og ég man hreinlega ekki hvað við gerðum þá... Eða jú, nú man ég það. Eftir morgunmat ókum við til Bolungarvíkur og byrjuðum á að fara þar í sund. Það var sólarlaust þegar við fórum ofan í laugina en við vorum svo stálheppin að meðan við sátum úti í heitum potti (laugin sjálf er samt innilaug) þá braust sólin milli skýjanna og það var alveg dásamlegt að sitja þarna í smá afslöppun og sólbaði. Eftir sundið tókum við smá rúnt um þorpið og kíktum meðal annars inn í verslun Bjarna Einarssonar, sem hefur verið starfandi síðan árið 1927. Hún lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð, en inni fæst allt milli himins og jarðar. Þar sá ég m.a. bókina Húsið eftir bloggvinkonu mína Hörpu Jónsdóttur, og Valur keypti bókina og gaf mér.

Þegar hér var komið sögu ætluðum við að fá okkur að borða og sáum þetta fína veitingahús blasa við. Þar var hópur af fólki fyrir utan og húsið greinilega lokað. Við stoppuðum bílinn og Valur spurði karlmann sem þarna var hvernig staðan væri. Einn úr hópnum var þá einmitt að hringja í kokkinn og í ljós kom að hann (eða hún) hafði farið heim í hádeginu, lagt sig eftir matinn og sofið helst til lengi. Ekkert stress í Bolungarvík, það er nokkuð ljóst. Okkur fannst þetta nú bara frekar sjarmerandi, tókum annan rúnt um plássið og fórum svo á veitingastaðinn þegar kokkurinn var kominn á sinn stað. Fengum þessa ágætu fiskisúpu og vorum ánægð með hana. Það er alltaf svo mikill munur að geta fengið eitthvað annað en hamborgara.

Næst á dagskrá var ferð í Skálavík. Við ætluðum reyndar líka helst að aka uppá Bolafjall, en það var þoka eða mjög lágskýjað, og það féll um sjálft sig. Leiðin til Skálavíkur var fremur seinfarin, aðallega vegna þess að við vorum alltaf að mæta bílum en vegurinn er bara einbreiður, og Valur var svo duglegur að stoppa og hleypa hinum framhjá. Það var eitthvað ættarmót í gangi á þessum slóðum, annars get ég ekki ímyndað mér að það sé svona mikil traffík þarna dags daglega. Það var nú ansi napurt þarna úti við sjóinn, en við vorum með nóg af utanyfirfatnaði með okkur og varð ekki kalt. Svo sátum við bara góða stund í fjörunni og horfðum og hlustuðum á úthafsölduna skella á fjörunni. Það er þetta með mig og sjóinn... Eitthvað tókum við af myndum líka, en mínar voru allar eitthvað hálf misheppnaðar, eins og stundum gerist.

Næst fórum við til Ísafjarðar. Mér datt í hug að gaman gæti verið að finna Húsið sem Harpa skrifar um í bókinni sinni, og við fundum það mjög fljótlega. Svo lögðum við bílnum og gengum aðeins um miðbæinn. Þar hittum við hjón sem einu sinni bjuggu hér á Akureyri, en þau höfðu leigt íbúð sem Læknafélagið á. Við settumst líka inná kaffihús/bakarí og fengum okkur kaffi og muffins. Þegar hér var komið sögu var komið hið ágætasta veður, sólin skein og það var mikið fjör á torginu þar sem einhverjar hljómsveitir voru að spila. Við létum þó gott heita og lögðum af stað aftur til Þingeyrar, með viðkomu í Bónus, þar sem við keyptum inn nesti fyrir heimferðina.

Um kvöldið  eldaði Guðbjörg mjög bragðgóðan kjúklingarétt og við sátum lengi og spjölluðum saman eftir matinn.

Á sunnudagsmorgni fóru svo flestir til síns heima á ný. Hjörtur ók tengdó á flugvöllinn á Ísafirði og hélt svo áfram Djúpið og til Reykjavíkur. Við Valur keyrðum til Akureyrar en Guðbjörg varð ein eftir í Vertshúsi. Þar ætlaði hún að vera ca. viku í viðbót og vinna. Það eru mörg handtökin sem hafa verið unnin í húsinu, og mörg eru enn eftir en fyrir utanaðkomandi þá virðist þetta hafa gengið alveg hreint ótrúlega vel hjá þeim. Og þvílíkur munur á húsinu frá því fyrir fimm árum síðan. Það er búið að vera mjög gaman að koma og sjá þær breytingar sem orðið hafa í hvert sinn, en þetta var jú þriðja ferðin okkar vestur á þessum fimm árum.

Læt ég nú þessari ferðasögu lokið en bæti hugsanlega inn myndum við tækifæri...

Engin ummæli: