þriðjudagur, 15. mars 2011

So far so good

Þeir eru byrjaðir að fljúga, svo þetta lofar að minnsta kosti góðu enn sem komið er. Ég hitti mann í morgun sem virtist alveg úttaugaður, svo ég fór að spjalla við hann til að reyna að hressa hann aðeins við. Kom þá í ljós að kona að sunnan hafði verið gestkomandi hjá honum og konu hans yfir helgina, en þegar sú sunnlenska komst ekki í flug á réttum tíma fór streitan heldur betur að segja til sín. Hafði hún áhyggjur af því að missa vinnuna ef hún yrði lengi veðurteppt hér norðan heiða og gærdagurinn hafði víst verið býsna erfiður. Morguninn toppaði þó allt, því þá hafði gesturinn viljað komast suður og það strax, og átti viðmælandi minn að finna út úr því hvernig hún kæmist með rútu suður. Hann hafði ekki hugmynd um það hvað rútufyrirtækið heitir sem keyrir hér á milli, né hvar það er til húsa. Rámaði í að það væri niðri á eyri og fór af stað með gestinn í bílnum. Stuttu síðar hringir konan hans með þær upplýsingar að rútan fari klukkan hálf níu og þau þurfi að flýta sér. Eftir að hafa fengið upplýsingar um það hvert halda skyldi, ók hann með konuna á réttan stað og hún nánast hljóp út úr bílnum. Lá henni svo mikið á, að hún steingleymdi að kveðja hann. Já svona getur stressið farið með fólk!

Engin ummæli: