laugardagur, 12. mars 2011

Átti góðan dag í gær

og ástæðan fyrir því að ég er að nefna það hér, er auðvitað sú að það er fréttnæmt! Einn dagur þar sem mér líður eins og ég sé nánast "eðlileg". Síðast átti ég góðan dag þann 26. janúar, svo það er nú um að gera að fagna þessum hvítu hröfnum. Það var nú samt frekar fyndið, ég var að vinna fyrripart og vaknaði klukkan sjö, þrátt fyrir að hafa farið seint að sofa.

Ástæðan fyrir því að ég fór seint að sofa var sú að ég fór á skemmtilegan fyrirlestur hjá Eddu Björgvins leikkonu kvöldið áður. Það var norðurlandsdeils Félags kvenna í atvinnurekstri sem stóð fyrir því að fá hana norður, þannig að mér fannst ekki annað hægt en að mæta, verandi í félaginu og alles. En mér fannst líka spennandi að hlusta á hvað hún hefði fram að færa. Þetta var í einu orði sagt frábært kvöld. Sökum óveðurs mættu bara 12 konur, og Edda var svo glöð að við lá að hún faðmaði hverja og eina sem kom, bara fyrir að brjótast í gegnum óveðrið (eða þannig). En já þetta var flottur fyrirlestur hjá henni og ég hló nánast allt kvöldið. Eitt af því sem hún talaði um var það hversu hlátur hefur góð áhrif á streitu, verki og svefn. Og ég svaf einmitt sérlega vel um nóttina og vaknaði sem sagt í þennan góða dag.

Ég reyndar var svo vitlaus að það var ekki fyrr en klukkan var að verða eitt og ég hafði ekki sest niður allan tímann í vinnunni, að ég áttaði mig á því að ég væri hressari en venjulega... En já ég var að ganga frá nýjum vörum inná lager og raða þeim á borð í búðinni, og reyna að finna pláss fyrir eldri vörur sem þurfti þá að hliðra til, þannig að ég var á stanslausu rápi um búðina og inná lager. Eftir vinnu fór ég svo aðeins heim en síðan í konuklúbb, þar sem ég var líka uppá mitt besta og hló og spjallaði hægri vinstri. Í síðustu klúbbum hef ég átt nógu erfitt með að bara sitja upprétt, svo þetta var tilbreyting.

Í gærkvöldi fór ég svo að reyna að finna myndir á ljósmyndasýningu sem ljósmyndaklúbburinn minn ákvað skyndilega að efna til, í tilefni af Gildeginum í listagilinu. Ég hafði fengið póst þar að lútandi á sunnudegi en "gleymdi" þessu svo bara nánast alveg, þar til ein af konunum kom í búðina í gær og var að leita að Kára í AB búðinni, en hún ætlaði að fá hann til að setja myndir á frauðplast fyrir sig. Þá espaðist ég öll upp og fannst að ég yrði að vera með. Það var nú þrautin þyngri að velja myndir og til að kóróna það, fann ég hreinlega ekki myndirnar mínar inni í myndaforritinu (eitthvað stillingaratriði), þannig að ég þurfti að vinna sumar uppá nýtt. En sem sagt, ég valdi fjórar myndir og Valur bjargaði öllu hinu. Hann prentaði þær út, setti í ramma og fór svo með mér í morgun og festi þær upp. Þannig að ef hann hefði ekki verið til staðar, þá hefði ég örugglega ekki verið með. En svo þegar myndirnar voru nú einu sinni komnar uppá vegg þá var ég bara voða glöð með að hafa tekið þátt :)

Síðan fór ég í vinnuna en stoppaði ekki lengi því hinar ljósmyndaskvísurnar hringdu og ætluðu að hittast klukkan þrjú og skoða sýninguna okkar + fara á fleiri sýningar í gilinu. Þannig að ég samdi við Silju sem var að vinna um að vinna klukkutíma lengur og stakk svo bara af... Valur og Andri sóttu mig og þeir komu líka og kíktu á þessa sýningu og eins aðalsýninguna sem var að opna í Listasafninu, sem var líka ljósmyndasýning. Svo ók Andri pabba sínum út á flugvöll en ég var lengur með stelpunum og við skoðuðum líka sýningu á barnabóka-myndskreytingum í Deiglunni. Það var líka mjög flott.

Svo fór ég nú bara heim, enda var dagurinn í dag langt frá því að vera eins góður og gærdagurinn. Svimi, þreyta, höfuðverkur, ógleði, stífleiki og verkir voru þema dagsins, en ég reyndi nú að horfa framhjá því í lengstu lög.

Núna er Valur sem sagt farinn suður og flýgur til Tromsö á morgun. Ég ætla svo að heimsækja hann og það er nú bara alveg að skella á! Ég fer suður á þriðjudag og út á miðvikudag. Er bara farin að hlakka til að kíkja á fornar slóðir, 10 árum eftir síðustu heimsókn.

Engin ummæli: