fimmtudagur, 7. október 2010

Stöðuuppfærsla



Gyllt trjágöng, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já já já, það er annað hvort í ökkla eða eyra með blogg virknina hjá mér, eins og venjulega. En ég dreif mig sem sagt út í morgun og rúntaði aðeins um bæinn í leit að myndefni. Það gekk nú svona og svona, aðallega vegna þess að ég var enn að drepast úr höfuðverk og bara alveg hrikalega sloj eitthvað. Ég rakst á hana Berglindi úr ljósmyndaklúbbnum, sem var að sjálfsögðu líka úti með myndavél :) Fyrst ók ég aðeins um innbæinn og fór svo inn að gömlu gróðrarstöðinni. Þar rölti ég um og fór meðal annars upp að gróðurhúsunum ofan og vestan við gamla húsið. Þar er þessi mynd tekin, fyrir ofan gróðurhúsin. Mér fannst nú ekki leiðinlegt að ganga þarna um því ég vann jú í garðræktinni nokkur sumur sem unglingur og þá var maður oft á þessu svæði þarna. Það rifjaðist ýmislegt skemmtilegt upp fyrir mér, enda þótti mér afskaplega gaman að vinna í garðræktinni.
Síðan ók ég fram í fjörð og dólaði mér meðfram Eyjafjarðaránni og inn að Hrafnagili. Fór út úr bílnum nokkrum sinnum og rölti um með myndavélina í góða veðrinu. Það er að minnsta kosti ekki hægt að segja annað en ég hafi reynt að láta mér líða betur, en það gekk víst ekki alveg upp. Þegar ég kom heim var ég alveg úrvinda og bað Andra að byrja í vinnunni fyrir mig í dag. Hann fór klukkan tvö og ég fer svo klukkan fjögur. Svo ég ég búin að biðja Andra að fara í Bónus og Ísak ætlar að elda, þannig að þetta verður í góðu lagi allt saman. Sem minnir mig á það að ég á eftir að gera innkaupalista og finna uppskriftina fyrir Ísak. Já og taka mig til fyrir vinnuna. Þannig að það er best að ég hætti þessu rausi.

Engin ummæli: