mánudagur, 25. október 2010

Same old, same old... svefnleysi


Ég er svo engan veginn að fatta hvað það er sem ræður því hvort ég næ að sofna á kvöldin eða ekki. Síðustu tvær næturnar hef ég sofið eins og ungabarn og líka gengið mjög vel að sofna. Í kvöld fór ég því mjög afslöppuð inn í rúm og beið eftir því að svefninn kæmi - en hann kom bara ekki neitt. Eftir að hafa legið og bylt mér í rúman klukkutíma gafst ég upp og fór fram. Reyndar var maginn eitthvað að plaga mig eins og stundum áður, svo kannski var það ástæðan fyrir því að ég náði ekki að sofna. Þannig að ég fékk mér lífræna AB jógúrt áðan og vonandi róast mallakútur aðeins við það.

Í morgun spjallaði ég við Hrefnu á skype en svo fórum við Valur út á Hjalteyri í ljósmyndaferð. Veðrið var nú svona la la til að byrja með, sól á köflum og kalt. Það stóð á endum að þegar við vorum orðin svöng og ætluðum að drífa okkur heim fór sólin að skína og loks komið þetta fína ljósmyndaveður. En þá vorum við nú búin að vera þarna í dágóða stund og auðvitað að taka myndir þó skilyrðin væru ekki alveg fullkomin.

Ég eignaðist tvo vini, eða aðallega einn, í ferðinni. Það voru tveir hundar sem gengu lausir en þó báðir með ólar svo líklega hafa þeir átt heima í einhverju af húsunum á Hjalteyri. Stærri hundurinn var tík og greinilega nýlega búin að eiga hvolpa því spenarnir á henni voru svo áberandi stórir. Ekki veit ég nú hvaða tegund þetta var en hún var frekar smávaxin en samt mun stærri en litla dýrið sem fylgdi henni. Sá hundur var svipaður á stærð og púðluhundur - en ekki veit ég heldur hvaða tegund hann var. Þekki greinilega afar fáar hundategundir. Ég er sem betur fer ekki hrædd við hunda og hef bara nokkuð gaman af þeim, þannig að það plagaði mig ekkert þó þau eltu mig á röndum hvert sem ég fór. Tíkin var þó öllu frekari á athyglina og vildi í sífellu láta klappa sér. Henni var nú reyndar svo kalt á tímabili að hún hríðskalf, enda var ansi napurt þarna alveg niðri við sjóinn í norðannepjunni. Það var líka búið að raka megnið af feldinum af henni svo hún hafði ekki sinn venjulega hlýja pels. Ég velti því fyrir mér hvort hún hafi kannski verið með ofnæmi eins og hundur vinkonu minnar, því ég sá enga aðra ástæðu til að raka hana.

Það er nú þannig með þessa ljósmyndara að þeir elta myndefnin eins og þeir geta og ég er engin undantekning þar á. Mér sýndist alveg gráupplagt að klifra uppá varnargarðinn sem lá meðfram vitanum og ná þannig mynd þegar brimið væri að skella á steinunum, með vitann í baksýn. Þannig að uppá varnargarðinn fór ég og byrjaði að taka myndir. Heyrði eftir smá stund miklar drunur í briminu en leit ekki við heldur beið eftir gusunni sem myndi koma. Þá byrjaði tíkin að gelta af miklum móð og fyrr en varði skall sjórinn á mér. Reyndar skvettist bara hressilega á þann fót sem nær var sjónum en brimið fór alla leið uppá garðinn áður en það sogaðist út aftur. Og hundurinn gelti og gelti þar til ég klifraði niður og var komin úr allri hættu. Þetta fannst mér nú svolítið merkilegt. Svo nálguðumst við Val þar sem hann stóð og tók myndir og aftur byrjaði hundurinn að gelta og ætlaði nú að vara mig við þessum manni. Frekar fyndið í ljósi þess að hún þekkti mig ekki frá því áður.

Og svona til gamans þá má sjá þessa nýju vinkonu mína hér á myndinni.

Engin ummæli: