miðvikudagur, 27. október 2010

Bras og þras í höfðinu á mér í dag

Eins og svo oft vill verða þegar skrokkurinn segir pass en hugurinn er ósáttur við svoleiðis ræfilshátt.

Ég vaknaði á tilsettum tíma í morgun og dreif mig í sund um leið og Ísak fór í skólann. Mér gekk nú bara nokkuð vel að koma mér út úr húsi, svona miðað við að ég var gjörsamlega að drepast úr þreytu eftir vinnu í gær. Þá gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema bara hanga. Hékk í tölvunni, hékk fyrir framan sjónvarpið, hékk við eldhúsborðið og gerði krossgátu. Þið skiljið hvað ég er að fara...

Það var ósköp ljúft í sundinu, ég synti mínar tíu aumingja-ferðir og fór svo í pottinn og gufu samkvæmt venju. Held að ég hafi samt verið einum of lengi á báðum stöðum því ég var orðin eins og slytti að því loknu. Reyndi að fara undir köldu sturtuna en það var algjör kattarþvottur þar á ferð. Það voru hressar konur í búningsklefanum og ég var að tala um það hvað aldurssamsetningin hefði breyst frá því ég byrjaði að synda svona á hverjum degi. Munur að vera ekki lengur langyngst :)

Þegar ég kom heim var ég svo lúin eitthvað að ég var ekki að nenna að fá mér morgunmat heldur lufsaðist niður fyrir framan tölvuna (já ég veit, meiri bölvaldurinn þessi tölva) í hálftíma eða svo. Þar til hungrið rak mig á fætur og ég fékk mér mitt haframjöl. Ekki dugði það þó til að hressa mig og eftir að hafa farið aftur í tölvuna í smá stund lá leiðin rakleiðis inn í rúm og þar hef ég legið þar til núna (að ég sest aftur fyrir framan tölvuna - vá, held að ég verði barasta að fara í tölvubindindi).

Eins og staðan er núna, þá er ég ekki búin að taka úr uppþvottavélinni né laga til í eldhúsinu, og já ekki búin að gera neitt yfirhöfuð annað en fara í sund í dag - já og anda inn og út. Reyndar setti ég í eina þvottavél áður en ég lagði mig - og þyrfti að hengja upp þvottinn. Svo þyrfti ég sem sagt að græja eldhúsið og helst laga til í húsinu. Nota tímann því við erum að fá gesti um helgina. Guðjón bróðir Vals og Edda konan hans ætla að heiðra okkur með heimsókn, nokkuð sem gerist afar sjaldan. Þannig að það væri nú skemmtilegra að húsfreyjan drattaðist til að hafa sæmilega snyrtilegt þegar gestina ber að garði. Það er bara dálítið erfitt þegar maður kemst varla milli herbergja fyrir þreytu.

Þetta eru líklega  eftirköst eftir ferðina suður í síðustu viku. Ég svaf náttúrulega illa bæði nóttina fyrir Reykjavíkurferðina, á hótelinu, og nóttina eftir að ég kom heim. Og þessa daga vorum við alveg á fullu, plús að ég fór beint í vinnu á föstudagsmorgninum og var líka að vinna á laugardeginum. Var reyndar í fríi á sunnudeginum og hann var bara alveg þokkalega góður hjá mér. En á mánudagurinn, gærdagurinn og dagurinn í dag hafa verið hrikalega þungir. Svona er þetta víst bara, maður þarf að borga fyrir allt sem maður tekur út úr "orkubankanum" með háum vöxtum og nú er ég farin að borga háa yfirdráttarvexti, svona ef maður heldur áfram með þessa líkingu. Og það eina sem dugar í því máli er að safna orku aftur - með því að hvíla mig. En einhvern veginn finnst manni að fullfrísk manneskja á besta aldri eigi ekki að þurfa að sitja á rassinum allan daginn og hvíla sig. Sem sagt, enn og aftur kemur í ljós að ég get seint sætt mig við að vera svona og er með brjálaða fordóma gagnvart eigin sjúkdómi.

Nú er ég aldeilis búin að ausa úr mér og ætla að drífa mig út úr þessu volæði og hitta Val í hádeginu niðri í bæ ;-)

Engin ummæli: