fimmtudagur, 23. september 2010

Fallegt haustveður í dag



Early autumn morning, originally uploaded by Guðný Pálína.
Jæja nú er best að blogga fyrir Hrefnu mína svo hún hafi eitthvað að lesa á kvöldin í Kenya.

Það er bara brjálað að gera hjá frúnni þessa dagana. Ég er í sjúkranuddi einu sinni í viku og finn að það gerir mér gott. Er aðeins að liðkast og vöðvabólgurnar að minnka. Sú sem er að nudda mig lærði í Kanada og hún veit greinilega sínu viti.

Svo erum við að hittast nokkrar ljósmyndaskvísur og ætlunin er að fara í ljósmyndaferð um helgina. Leggja af stað á laugardagsmorgni og fara í Skagafjörðinn / á Skagann. Gista svo á Blönduósi um nóttina og fara í Vatnsdalinn og hugsanlega á fleiri staði á sunnudeginum. Þetta er allt gott og blessað, nema hvað ég hef verið svo slæm af vefjagigtinni undanfarið að ég treysti mér varla í tveggja daga ferð. Erfiðast er að vera partur af hópi og þurfa að fylgja prógrammi sem maður stjórnar ekki sjálfur. Þolið er nú ekki meira en svo að í morgun fór ég út að taka myndir og var alveg búin á því eftir klukkutíma. Mér hafði dottið í hug að ég gæti bara verið á mínum eigin bíl og þá gæti ég t.d. bara farið heim þegar/ef ég væri alveg búin á því á sunnudagsmorgninum - en ég veit það ekki. Það er auðvitað miklu skemmtilegra að vera allar saman í bíl þar sem við verðum nú bara fjórar. Æ jæja, þetta kemur bara allt í ljós.

En já svo er reyndar líka kóræfing á sunnudaginn klukkan fimm og ef ég verð í ljósmyndaferð þá kemst ég ekki á kóræfingu. Meinið er að mig langar ekki að missa af henni, svo ég er í smá klemmu með þetta allt saman.

Núna á eftir er ég svo að fara að hitta vinkonur mínar, þær Hafdísi og Bryndísi, í hádegismat. Við ætlum að fara á nýja staðinn í menningarhúsinu og það verður bæði spennandi að koma þangað og mjög gaman að hitta þær. Við kynntumst þegar Hafdís var leiðbeinandinn okkar Bryndísar í lokaverkefninu í viðskiptafræðinni og höfum reynt að halda sambandi síðan. Það hefur þó verið afar stopult einhverra hluta vegna, en alltaf jafn gaman þegar við hittumst.

Annars er veðrið úti alveg hreint yndislegt núna. Það var við frostmark í morgun en sólin yljar allt og einhverjar hitagráður eru á mælinum núna þó þær séu ekki margar. Ég kippti myndavélinni með mér í töskuna þegar ég fór í sundið í morgun og fór smá myndarúnt eftir sund. Þessi mynd er tekin niðri á eyri eins og sjá má á göngubrúnni. Ég var svo heppin að það kom flugvél og flaug þarna yfir einmitt þegar ég var á leið í bílinn aftur. Það er miklu skemmtilegra að hafa einhverja svona "aukahluti" á myndunum en það tekst nú ekki alltaf. Svo tók ég líka fleiri myndir af bænum frá ólíkum sjónarhornum og einhverjar þeirra eiga sjálfsagt eftir að rata hingað inn síðar.

Engin ummæli: