miðvikudagur, 15. september 2010

Nú er ég alveg búin að gleyma hvað ég ætlaði að segja



Dreamy, originally uploaded by Guðný Pálína.
Gleymna Guðný ;-) En já ég var búin að hugsa upp eitthvað til að blogga um en það hefur greinilega ekki verið merkilegt því það er ekki séns að ég muni hvað það var. Þar sem ég er nú sest við tölvuna mun ég engu að síður bulla eitthvað eins og mín er von og vísa.

Ég fór í sund í morgun og synti heilar sex ferðir. Eftir að hafa byrjað af þessum mikla krafti um daginn (að synda tíu ferðir daglega í viku) fékk ég svo miklar vöðvabólgur að ég neyddist til að draga úr fjölda ferða. Sjúkranuddarinn sem er að reyna að losa mig við alla mína vöðvahnúta ráðlagði að ég myndi bara synda 4-6 ferðir næstu tvær til þrjár vikurnar. Úff, mér líður eins og algjörum aumingja að synda svona lítið þegar ég er á annað borð komin ofan í laugina, en það er heldur ekki gott að verkja óendanlega mikið í skrokkinn, svo ætli ég fari ekki að ráðum hennar. Stundum þarf maður á því að halda að heyra sannleikann frá öðrum þó svo að maður viti þetta allt.

Það hefur verið alveg skelfilega rólegt í vinnunni það sem af er september og ég á pínu erfitt með mig í öllum þessum rólegheitum. Bæði vegna þess að þá fer ég að hafa áhyggjur af afkomunni, og eins fer mér hreinlega að leiðast þegar ég hitti svona fáa viðskiptavini. Það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir að þurrka af og vinna í pappírum. Enda hef ég heldur ekki getað unnið í bókhaldinu vegna verkjanna í síðunni. Mér skilst að þessi rólegheit séu ekki bara hjá okkur. Áðan var ég að spjalla við konu sem var nýkomin að sunnan og hún hafði heyrt í fjórum ólíkum verslunum að um leið og september skall á þá hafi bara öll verslun dottið niður. Já já, en svo styttist í október og jólasalan byrjar jafnvel aðeins þá, þannig að þetta fer allt að hafast.

Annars er ég í fríi í dag og ætla að reyna að njóta þess. Þarf reyndar að byrja á því að fara á pósthúsið og sækja sendingu fyrir búðina. Ég ætlaði nú að gera það í gær en tókst að steingleyma því. Svo á ég pantað í lit og klippingu klukkan tólf og það fer nú alltaf dágóður tími í það stúss. Já og ferð í Bónus er líka á dagskránni, þannig að mér mun að minnsta kosti ekki leiðast í dag ;-)

Engin ummæli: