miðvikudagur, 23. apríl 2008

Skottið eins og klósettbursti

Ég get ómögulega munað hvar ég heyrði þessa líkingu fyrst, kannski var það hjá Bryndísi sem talaði um rykrottur og fleira sem ég hafði aldrei heyrt áður. Kannski hjá einhverjum allt öðrum. En mér finnst þetta a.m.k. skemmtileg samlíking og áðan var skottið á Mána sem sagt í laginu eins og klósettbursti.

Ég lá (aldrei þessu vant) á sófanum í stofunni og hurðin út í garð var opin enda áframhaldandi gott veður hér norðan heiða. Þá kom Birta inn og ég sá að skottið á henni var býsna digurt svo ég staulaðist á fætur og leit út. Þar var Máni búinn að fela sig inni í trjábeði og fyrir framan það lá bröndóttur köttur og starði á Mána. Upp var greinilega komin einhver pattstaða en um leið og ég kom í dyrnar lagði sá bröndótti á flótta, þó hægt færi. Um leið og hann var búinn að snúa bakinu í Mána kom hinn síðarnefndi út úr trjábeðinu og vá hvað skottið á honum var úfið. Nú þegar honum hafði borist liðsauki þandi hann brjóstið og rak upp ámátlegt hljóð sem hefur kannski átt að stökkva óvininum á frekari flótta en var of væskilslegt til að ná fullkomnum árangri. Til að fylgja hljóðinu eftir með verklegum hætti lagði Máni af stað á eftir þeim bröndótta sem gekk aðeins hraðar á brott með skottið á milli lappanna (í orðsins fyllstu merkingu). Ég kallaði á Mána því ég óttaðist að hann væri að lenda í slagsmálum en hann þóttist ekki heyra í mér. Þrátt fyrir digurbarkalega hegðun elti hann óvininn ekki lengra en að endamörkum lóðarinnar en þar stóð hann svo í smá stund áður en hann snéri við og kom til mín. Með þetta líka risastóra skott! Fram til þessa hefur Máni seint getað talist með hugrökkustu köttum svo ég veit ekki alveg hvað hefur komið yfir hann.

Engin ummæli: