laugardagur, 19. apríl 2008

Já einmitt!

Ísak fékk leyfi til að fá tvo vini sína í næturheimsókn og ég hef að mestu látið þá afskiptalausa í kvöld. Vissi að þeir fóru út í sjoppu til að kaupa sér snakk og nammi, og var ekki að tékka neitt sérstaklega á innihaldi pokanna sem þeir komu með heim. Eftir að hafa setið í símanum í nærri klukkutíma og spjallað við góða vinkonu mína datt mér í hug að fara niður í sjónvarpsherbergi og athuga hvort allt væri ekki í lukkunnar velstandi. Þegar ég nálgaðist heyrði ég að heimabíóið var á fullu gasi og mikill hlátur mætti mér. Þá voru þeir búnir að leigja mynd og þar fyrir utan voru hvorki meira né minna en 6 tómar dósir undan orkudrykkjum á borðinu. Ekki nema von að það væri fjör hjá þeim! Ég hef aldrei keypt orkudrykk handa Ísak og var nú ekkert voða hrifin af því sem fyrir augu bar. "Jæja, ætli þið sofnið nokkuð fyrr en í fyrramálið?" var eina athugasemdin sem mér datt í hug og fékk snöggt svar: "Blessuð vertu, við finnnum ekki fyrir þessu". Og þá varð mér að orði: "Já, einmitt!" Svo fór ég bara og vildi ekki vera að skemma ánægjuna fyrir þeim. En sem sagt, það verður spennandi að vita hvenær þeir sofna í kvöld/nótt...

Og nú er ég búin að blogga enn einu sinni - treysti því að Hrefna mín verði ánægð með frammistöðuna hjá mömmu sinni :-)

Engin ummæli: