laugardagur, 26. apríl 2008

Fótsnyrting óskast

Ég er eiginlega að verða alveg ótrúlega góð í bakinu og fóturinn er allur að koma til líka. Þannig að ég er farin að geta gert ýmislegt sem ég hef ekki getað auðveldlega síðustu vikur s.s. að tína hluti upp af gólfinu. Ég passa mig bara að beygja ekki bakið, heldur beygi mig í mjöðmum og hnjám. Eftir töluverða óþolinmæði í bataferlinu sé ég sem sagt loks fram á að betri tíð með blóm í haga. Þó er eitt sem ég get ekki framkvæmt og það er að snyrta á mér fæturnar + að ég á ennþá erfitt með að komast í sokka sjálf án þess að bogna í baki. En ég klára þetta með sokkana með smá þolinmæði, hinsvegar er engin leið til að ég geti raspað á mér hælana eða klippt táneglurnar sjálf. Ætli ég muni ekki leita á náðir eiginmannsins með þessa bráðnauðsynlegu hluti. Annað eins er hann nú búinn að gera fyrir mig á þessu veikindatímabili. Í gær útvegaði hann mér t.d. ofnæmistöflur og krem á bólurnar og ég er laus við 80-90% af þeim, sem betur fer. Við erum nefnilega að fara í fermingarveislu í dag og það hefði verið frekar fúlt að mæta þangað eins og ég var.

Það er Jóns Stefán vinur Ísaks og sonur Sunnu og Kidda sem er að fermast. Maður áttar sig helst á því hvað tíminn líður hratt þegar maður sér börnin vaxa úr grasi og verða að unglingum og svo fullorðnu fólki. Ísak og Jón Stefán kynntust á leikskóla svona ca. 2ja til 3ja ára gamlir og hafa verið bestu vinir síðan. Þó koma tímabil inn á milli þar sem þeir hittast minna en vinskapurinn er ávallt sá sami.

Þetta minnir mig á vinskap okkar Rósu, æskuvinkonu minnar, sem átti heima hér beint á móti mér í Stekkjargerði. Þó við höfum ekki búið í sama bæ síðan um tvítugsaldurinn, þá er þessi kjarni alltaf til staðar og iðulega jafn gaman að hittast þó það sé kannski ekki svo oft. Hin síðari ár hef ég fengið að gista hjá henni þegar ég hef verið að erindast í höfuðborginni og það er alltaf jafn notalegt.

Engin ummæli: