laugardagur, 9. júní 2007

Komin í sumarfrí í tvær vikur

og bara nokkuð ánægð með það. Hef verið svo óskaplega þreytt eitthvað undanfarið og hressist vonandi við að slappa af með bóndanum sem er líka í fríi. Meiningin er að skreppa vestur í Dýrafjörð seinni partinn í næstu viku, þ.e.a.s. ef allt gengur eftir. Ísak þarf að keppa einn fótboltaleik seint á miðvikudaginn og getur ekki hugsað sér að sleppa honum, svo við förum ekki fyrr en að honum loknum.

Annars fór ég í óvissuferð með kvennaklúbbnum mínum í gær. Held að það sé í annað skipti á ævinni sem ég prófa svoleiðis. Og það var bara mjög gaman. Byrjuðum á því að skoða risastórt fjós að Garði í Eyjafjarðarsveit og það var nú aldeilis fróðlegt. Kýrnar fara sjálfar á þartilgerðan bás til að láta "vélmenni" mjólka sig og flórinn er mokaður af öðru vélmenni. Eftir fjósið var okkur svo ekið örstuttan spotta upp frá veginum og þá áttum við að fara út úr bílnum og í göngutúr. Gengum uppá eitthvað sem er eiginlega ekki fjall en samt hærra en smá hæð og heitir "Hnaus". Skilst að hæðin sé eitthvað um 6-700 metrar. Þetta er lægsta "fjall" við fjörðinn þar sem er gestabók að finna og þaðan er afskaplega fallegt útsýni út Eyjafjörð. Til að kóróna þetta var veðrið alveg dásamlegt. Þegar við sátum uppi á toppnum varð einni okkar að orði að þarna hefði hún komist í samband við sjálfa sig aftur, eftir mikið stress og læti undanfarnar vikur. Svo röltum við niður aftur og settumst í græna lautu. Þar var okkur boðið uppá smurðar samlokur, heimabakað muffins, heilsunammi og kakó úr brúsa. Við borðuðum og spjölluðum dágóða stund áður en við fórum í bæinn aftur. Ég var bara alveg endurnærð eftir að hafa verið svona úti í náttúrunni. Hefði viljað vera með myndavél til að geta fest eitthvað af þessu á filmu en nei, ekki mundi ég nú eftir að taka hana með...

Engin ummæli: