mánudagur, 13. júní 2005

Suðurferðin gekk vel

og ég held bara að mamma hafi verið glöð að sjá mig... Hún er sem betur fer öll að koma til eftir veikindin en þó var hún ósköp föl á vanga ennþá. Þau Ásgrímur eru komin með internettengingu og sátum við mæðgur saman dágóða stund við að læra á póstforritið. Það er gaman að þau skuli hafa áhuga á að tæknivæðast þrátt fyrir að vera undir (mamma) og yfir (Ásgrímur) áttræðu. Eini gallinn er sá að það vill fljótt gleymast sem ekki er æft, svo ég skrifaði niður leiðbeiningar eins skilmerkilega og ég gat, hvernig á að senda póst, hvernig á að senda póst með viðhengi - og svona í framhjáhlaupi, hvernig á að leita að upplýsingum á netinu.

Á heimleið á sunnudeginum kom ég "aðeins" við í Smáralindinni og gekk þar vasklega til verks. Stikaði um verslunina og greip með mér allar þær flíkur sem vöktu áhuga minn og svo var mátað þar til svitinn bogaði af mér. Enda uppskar ég árangur erfiðis míns, keypti mér sumarlega blússu, e-s konar vesti, hvítar buxur, gallabuxur og gallajakka.Fannst ég hafa verið rosalega dugleg, nú þarf ég ekki að klóra mér alveg jafn mikið í höfðinu þegar ég er að klæða mig á morgnana ;-) Og svo var brunað norður í faðm eiginmannsins sem hafði ekki setið iðjulaus meðan ég var í burtu frekar en fyrri daginn. Búinn að kaupa sumarblóm - og planta þeim! Ég sem var búin að tala um að gera það í hálfan mánuð eða svo, án þess að af yrði. Hm, en engu að síður vantar ennþá blóm í potta og ker til að lífga meira uppá umhverfið, þannig að ef einhver hefur haldið að ég sé orðin algjörlega óþörf á heimilinu þá er það nú ekki alveg rétt ;-)

Engin ummæli: