miðvikudagur, 6. janúar 2021

Ekki var ég alveg sannspá hvað nætursvefninn varðaði

 Það byrjaði eitthvað svefnrugl á mér í haust og ég hélt fyrst að dægurklukkan hefði ruglast í ríminu þegar daginn fór að stytta - en svo heldur þetta bara áfram. Sum kvöld næ ég rétt að festa svefn en hrekk svo upp skömmu síðar og er alveg glaðvakandi. Þá þýðir ekkert annað en fara aftur fram og gera aðra tilraun til svefns eftir 1-2 tíma. Svo vakna ég nokkrum sinnum yfir nóttina og stundum gengur mér líka illa að sofna aftur um miðja nótt. Ég er með símann við hliðina á rúminu og með hljóðbækur eða podcöst tilbúin, því mér finnst skást að sofna út frá einhverju slíku. En já það eru orðnar ansi margar næturnar í vetur sem ég er bara að ná 5-6 tíma svefni og það er alls ekki nóg fyrir mig ... Gamla gamla ... Skyldi þetta tengjast breytingaskeiðinu? Ekki veit ég. Man samt að Palli bróðir átti lengi vel við svipað vandamál að stríða og ekki var hann nú á breytingaskeiði 😆. O jæja það má vona að þetta lagist með hækkandi sól - lagast ekki allt þá?

Eftir langan zoom vinnufund í morgun fór ég svo til mömmu eftir hádegið. Á leiðinni inn á deildina rakst ég á Þuríði sem er forstöðumaður Nesvalla og Hlévangs. Hún sagði mér í óspurðum fréttum að mamma væri hress eftir bólusetninguna og hið sama mætti segja um alla íbúa hjúkrunarheimilanna í Reykjanesbæ. Svo það eru nú góðar fréttir. Mamma var reyndar ótrúlega hress og virkilega glöð að sjá mig. Annað en síðast þegar ég kom því þá áttaði hún sig alls ekki strax á því hver ég var - enda með grímu í framan og mamma þar að auki frammi í setustofu að drekka kaffi. En já við áttum bara góða stund saman mæðgurnar. Skoðuðum gömul myndaalbúm og hún gat nefnt fólk frá uppvaxtarárunum í Hornafirði með nafni, en svo fór að halla undan fæti með að þekkja fólkið á nýrri myndum. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa hitt svona vel á hana. En það getur verið mjög mikill dagamunur á henni.

Eftir að hafa heimsótt mömmu fór ég rakleiðis í næstu fjölskylduheimsókn, til Andra, Freyju, Mattíasar og Vals Kára. Það var SVO gaman að sjá þau öll og fá að hnoðast aðeins með Val Kára. Hann er nýorðinn 4ra mánaða og hefur heldur betur þroskast og dafnað síðan ég sá hann síðast. Matthías var að "taka niður jólin" með pabba sínum og dálítið upptekinn við það. Þau ætla svo að koma inn til Reykjavíkur á laugardaginn og þá hittumst við aftur. Þá verður líka Valur kominn (hann kemur með flugi á morgun) þannig að hann fær að hitta þau líka :)





P.S. Þetta er bloggfærsla 6/100 í bloggáskorun ársins 2021

Engin ummæli: